Vandræði á nokkrum vegum í dag

Ökumenn lentu í vandræðum á nokkrum fjallvegum á Austurlandi í dag. Opnað var um stund seinni partinn milli Hafnar og Djúpavogs. Ný gul viðvörun hefur verið gefin fyrir Austurland vegna snjókomu annað kvöld.

Ökumenn lentu í vandræðum á Fagradal og Fjarðarheið um hádegi í dag en hált var á þeim leiðum. Þá þurfti að aðstoða ferðalanga sem lagt höfðu á Hellisheiði þótt hún hafi ekki enn verið opnuð í ár. Allar leiðir til Vopnafjarðar eru því lokaðar þar sem vonskuveður er á Sandvíkurheiði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu urðu engin slys á fólki í þessum atvikum.

Vegurinn milli Djúpavogs og Hafnar var opnaður um stund þegar lægði upp úr klukkan þrjú. Hann lokast aftur klukkan sex. Stórum ökutækjum, sem taka á sig mikinn vind, var ekki hleypt á veginn.

Appelsínugul viðvörun vegna norðvestan storms og hríðar gildir á Austurlandi og Austfjörðum þar til klukkan fimm í fyrramálið. Þá á heldur að lægja og við tekur gul viðvörun til klukkan níu að morgni.

Þá gaf Veðurstofan í dag út nýja viðvörun sem gildir frá klukkan 16 á morgun og fram yfir miðnætti. Spáð er norðvestan 8-15 m/s með úrkomu sem fellur sem rigning eða slydda við sjávarmál annars staðar sem snjókoma til fjalla með versnandi færð.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.