Skip to main content

Vandséð að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu efli Seyðisfjörð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. jan 2013 14:22Uppfært 08. jan 2016 19:23

vilhjalmur_jonsson_sfk_mai12.jpg
Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, segir rekstur sveitarfélagsins stefna í rétta átt eftir miklar aðgerðir til að rétta reksturinn við. Framtíðin velti samt á því hvað gerist í atvinnumálum. Vandséð sé að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og veiðileyfagjaldi efli sjávarútveg á staðnum.

Þetta kom fram í áramótaávarpi Vilhjálms sem nú hefur verið birt á vef sveitarfélagsins.  Gripið var til mikilla aðhaldsaðgerða haustið 2011 sem Vilhjálmur segir hafa skilað árangri þótt aðhalds verði áfram þörf.

„Fjárhagsætlanir gera ráð fyrir að skuldaviðmiðum sveitarstjórnarlaga verði náð í lok árs 2017. Það er  mikilvægt að þeirri stefnu sem í áætlununum felst verði fylgt eftir. Það mun til framtíðar skila sér í  bættri þjónustu og möguleikum til uppbyggingar. Atvinnumálin og hvernig til tekst varðandi atvinnustigið ræður samt mestu um hér eftir sem hingað til.“

Of litlar aflaheimildir á Seyðisfirði 
 
Það er því ekki að undra þótt atvinnumálin hafi verið Vilhjálmi hugleikin í nýársræðunni. Hann benti til dæmis á að erfitt væri að sjá jákvæðar afleiðingar af veiðileyfagjaldinu á Seyðisfjörð.

„Útgerð og vinnsla sjávarfangs gekk nokkuð vel en aflaheimildir á Seyðisfirði eru allt of litlar. Hver áhrif verða af breytingunni á veiðileyfagjaldinu og fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru óviss. 

Vandséð er eins og horfir að þær muni efla þessa starfsemi eða þjónustu við hana á Seyðisfirði. Á fyrstu mánuðum ársins var óvenju miklu landað hér til bræðslu miðað við undanfarin ár og óhætt er að segja að þess sjái fljótt jákvæð merki í bæjarlífinu í auknum umsvifum og  þjónustustarfsemi.“

Auknar álögur á ferðaþjónustuna óheppilegar á uppbyggingartíma 
 
Vilhjálmur fagnaði uppbyggingu í ferðaþjónustu, fleiri farþegum með Norrænu utan hefðbundins ferðamannatíma, auknum komum skemmtiferðaskipa og síðast en ekki síst heimsókn kvikmyndatökuliðs úr Hollívúdd. Því sé aukin skattlagning á greinina óhentug á sama tíma og menn standi í uppbyggingu.

„Ferðaþjónustuaðilar hér hafa áhyggjur af afleiðingum ákvarðana um aukna skattlagningu á greinina, sem komi afar illa við á sama tíma og unnið er að markaðsstarfi og fjárfestingu til uppbyggingar. Vonandi rætast þær áhyggjur ekki. Í húfi er einn af vaxtarsprotunum í atvinnulífinu hér um þessar mundir.“

Þá komust göng undir Fjarðarheiði inn á samgönguáætlun á árinu. Vilhjálmur segir að sú barátta haldi áfram og helst þurfi að koma þeim framar í röðinni. Hann telur skilning á nauðsyn framkvæmdarinnar almennt hafa vaxið. Göngin skipti miklu máli því stór hluti bæjarbúa sæki „vinnu og verkefni út fyrir kaupstaðinn þrátt fyrir erfiðar samgöngur“