Vanhæfi ráðherra ekki tengt Hamarsvirkjun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. ágú 2025 13:18 • Uppfært 22. ágú 2025 13:19
Vanhæfi sem veldur því að Logi Einarsson tekur sæti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í stað Jóhanns Páls Jóhannssonar við meðferð Hamarsvirkjunar í rammaáætlun er tengt annarri virkjun sem er til meðferðar um leið.
Ráðuneytið tilkynnti á miðvikudag að Logi hefði, sem settur ráðherra, ákveðið að leggja til breytingu á tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Hún hafði sett Hamarsvirkjun í verndarflokk en tillaga Loga gengur út á að hún verði færð í biðflokk.
Ásamt Hamarsvirkjun voru fjórar aðrar virkjanir í ferli um leið. Þær eru Bolaölduvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun, Tröllárvirkjun og Hamarsvirkjun.
Í tilkynningu ráðuneytisins í vikunni kom fram að Jóhann Páll hefði, eftir að tillögunni verkefnisstjórnarinnar var skilað inn um miðjan mars, vikið sæti vegna vanhæfis. Austurfrétt óskaði eftir nánari upplýsingum í hverju það vanhæfi fælist.
Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu snýst það um að tengdafaðir ráðherrans á hlut í Reykjavík Geothermal og starfar þar sem rekstrarstjóri. Fyrirtækið hefur hug á að byggja Bolaölduvirkjun, sem verkefnisstjórnin setti í nýtingarflokk.