Vara við hvassviðri á Austfjörðum upp úr miðnætti og fram á morgundaginn
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris fljótlega upp úr miðnætti og fram á miðjan dag á morgun á Austfjörðum.
Komandi vetur virðist ætla að byrja með látum nokkuð snemma. Í ofanálag við snjó í fjöllum og hálkukafla á vegum víða þennan morguninn hefur Veðurstofan nú gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris en hún nær að mestu aðeins til fjarða Austurlands þó gera megi ráð fyrir blæstri víðar en það. Þessu gæti hugsanlega fylgt slydda eða snjókoma á fjallvegum.
Fer að hvessa fljótlega upp úr miðnætti og frá þeim tíma og fram á miðjan dag á morgunn gerir Veðurstofan ráð fyrir norðvestan hvassviðri milli 10 og 18 metrum á sekúndu með hviðum að 30 metrum á sekúndu við fjöll. Það eru varhugaverðar aðstæður fyrir alla vegfarendur með aftanívagna sem og öll stærri ökutæki og þeir beðnir um að fara því sérstaklega varlega yfir þennan tíma.
Samkvæmt spám á að lygna á nýjan leik upp úr miðjum degi á morgun.