Varað við karrísíld vegna vanmerktra ofnæmisvalda
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. des 2023 17:34 • Uppfært 13. des 2023 17:35
Matvælastofnun sendi í dag frá sér aðvörun vegna vanmerktra ofnæmisvalda í karrísíld frá Ósnesi á Djúpavogi.
Í tilkynningu kemur fram að varan sé talin hættuleg neytendum með óþol eða ofnæmi fyrir eggjum eða sinnepsdufti. Um er að ræða síld í 2,25 kg döllum sem framleidd var fyrir heildsöluna Garra. Henni hefur því fyrst og fremst verið dreift til stóreldhúsa.
Ósnes hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Austurlands innkallað vöruna. Fólk sem keypt hefur vöruna og þolir hana ekki getur skilað henni til seljanda.