Varað við hættu á grjóthruni á sunnanverðum Austfjörðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. maí 2025 15:29 • Uppfært 23. maí 2025 15:31
Úrhellisrigning er á sunnanverðum Austfjörðum. Veðurstofan hefur varað við grjóthruni og skriðuföllum. Á Djúpavogi hefur fyrsta opinbera knattspyrnuleik Neista á heimavelli í 18 ár verið frestað. Íbúi segir hins vegar gróðurinn taka við sér.
„Það er ausandi rigning hér – búin að vera óvenju lengi,“ segir Kristján Ingimarsson, íbúi á Djúpavogi.
Samkvæmt tölum Veðurstofunnar byrjaði að rigna þar um klukkan átta í morgun og síðan hefur bætt í. Frá því á hádegi hefur úrkoman á hverjum klukkutíma mælst um 10 mm á veðurstöðinni á Teigarhorni í Berufirði. Uppsöfnuð úrkoma þar frá miðnætti var klukkan 15 komin í yfir 73 mm.
Ofanflóðadeild Veðurstofunnar sendi í dag frá sér viðvörun vegna aukinnar hættu á skriðuföllum og grjóthruni á sunnanverðum Austfjörðum og Suðausturlandi. Búist er við að uppsöfnuð úrkoma geti farið í yfir 100 mm og yfir 160 mm þar sem mest lætur.
Fólki er þess vegna ráðlagt að sýna aðgát á ferð undir bröttum fjallshlíðum og vegfarendum að kanna hjá Vegagerðinni hvort vitað sé um grjóthrun. Veðurstofan hvetur fólk til að tilkynna um skriður eða grjóthrun.
Vont fyrir völlinn en gott fyrir gróðurinn
Á Djúpavogi stóð til að Neisti léki sinn fyrsta heimaleik frá árinu 2007 í formlegri deildakeppni á vegum Knattspyrnusambands Íslands því Einherji átti að koma í heimsókn. En leiknum hefur verið frestað.
Kristján lýsir því að í allt í kringum leikvöllinn séu pollar og hann sjálfur dúi þegar gengið sé inn á hann. „Þetta þykir skynsamlegt, bæði út frá öryggi leikmanna og því hvernig völlurinn getur farið. Það var komin mikil stemming fyrir leiknum en það er ekkert við þessu að gera. Við mætum klárir til leiks þegar hann verður,“ segir Kristján en nýr leiktími hefur ekki verið staðfestur.
En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Úrkoma á Austfjörðum síðustu vikur hefur verið lítil og bætist við óvenju þurran vetur. „Fólk hér er ánægt meðan ekki falla skriður eða skemmdir verða því það hefur verið þurrt hér mjög lengi. Það sést munur á gróðrinum frá því í morgun.“
Mynd: Kristján Ingimarsson