Varað við hálku víða á fjallvegum austanlands
Lögreglan á Austurlandi varar vegfarendur við töluverðri hálku á fjallvegum víða eftir nóttina en frost mældist nokkuð víða og það jafnvel niðri á láglendi um tíma.
Meðfylgjandi mynd frá lögreglunni sýnir glögglega stöðuna á Fagradal fyrr í morgunn en ekki er svo algengt að snjór og frost geri vart við sig svo snemma að hausti þó það sé ekki einsdæmi. Þá kemur kuldakaflinn beint í kjölfar töluverðra rigninga víða í fjórðungnum svo gerir illt verra.
Nýjasta veðurspá Veðurstofu Íslands gerir ekki ráð fyrir meira frosti næstu daga en nærri fer þó um helgina þegar hitinn fer niður í eitt stig aðfararnótt sunnudagsins. Gert er ráð fyrir rigningu eða slydduéljum á morgun föstudag og fram í helgina, sérstaklega á fjallvegum en eftir helgina tekur að hlýna aðeins á ný þegar spáin gerir ráð fyrir að hitastig nái tveggja stafa tölu um hríð.