Skip to main content

Varað við hríð á morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. feb 2024 15:04Uppfært 26. feb 2024 15:35

Veðurstofn hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði vegna mögulegrar hríðar á morgun sem spillt gæti færð á vegum.


Spáð er vestan og norðvestan 15-23 m/s með slyddu í byggð en snjókomu til fjalla á Austfjörðum á morgun. Slíkt leiðir til lélegs skyggnis og akstursskilyrða, einkum á fjallvegum. Viðvörunin gildir frá klukkan sex í fyrramálið til eitt eftir hádegi.

Í fréttum frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar má lesa um að skíðamaður utan brautar hafi sett af stað snjóflóð í Stafdal í gær. Flóðið var breitt og tunga þess nógu þykk til að grafa mann. Athuganir á vettvangi gáfu til kynna að flóðið hefði farið af stað á veikleika á litlu dýpi í stífum vindfleka. Góð binding var við eldra hjarn neðar í snjóþekjunni. Önnur snjóflóð eru ekki skráð á Austfjörðum undanfarna viku.

Þá er alstöðin, sem vaktar hreyfingar í fjallinu ofan sunnanverðs Seyðisfjarðar, komin aftur á sinn stað eftir að hafa verið fjarverandi stóran hluta mánaðarins. Hún var send til Danmerkur í lok janúar þar sem hún fór í reglulegt viðhald hjá framleiðanda.