Varað við hríð á morgun

Veðurstofn hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði vegna mögulegrar hríðar á morgun sem spillt gæti færð á vegum.

Spáð er vestan og norðvestan 15-23 m/s með slyddu í byggð en snjókomu til fjalla á Austfjörðum á morgun. Slíkt leiðir til lélegs skyggnis og akstursskilyrða, einkum á fjallvegum. Viðvörunin gildir frá klukkan sex í fyrramálið til eitt eftir hádegi.

Í fréttum frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar má lesa um að skíðamaður utan brautar hafi sett af stað snjóflóð í Stafdal í gær. Flóðið var breitt og tunga þess nógu þykk til að grafa mann. Athuganir á vettvangi gáfu til kynna að flóðið hefði farið af stað á veikleika á litlu dýpi í stífum vindfleka. Góð binding var við eldra hjarn neðar í snjóþekjunni. Önnur snjóflóð eru ekki skráð á Austfjörðum undanfarna viku.

Þá er alstöðin, sem vaktar hreyfingar í fjallinu ofan sunnanverðs Seyðisfjarðar, komin aftur á sinn stað eftir að hafa verið fjarverandi stóran hluta mánaðarins. Hún var send til Danmerkur í lok janúar þar sem hún fór í reglulegt viðhald hjá framleiðanda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.