Varað við norðvestan stormi næstu daga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. okt 2023 15:51 • Uppfært 09. okt 2023 16:23
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austurland og Austfirði á morgun. Viðbúið er að færð á fjallvegum spillist. Landsnet varar við raforkutruflunum.
Viðvaranirnar skiptast í tvennt því búist er við stund milli stríða seinni partinn á morgun.
Í grófum dráttum þá gilda viðvaranirnar frá klukkan 11-17 á morgun. Á þessum tíma er spáð norðvestan 15-23 m/s með rigningu eða slyddu og jafnvel snjókomu til fjalla. Á Austfjörðum gæti gengið ögn síðar í veðrið en þar verður hvassara. Varað er við hviðum upp á 35 m/s við fjöll.
Seinni viðvörunin gildir frá 21 á þriðjudagskvöldi fram að hádegi á miðvikudag. Aftur er búist við meira hvassviðri eða 18-23 m/s, á Austfjörðum. Þar verði veðrið líka síðar á ferðinni.
Vegna alls þessa er fólk hvatt til að ganga frá lausamunum og fara varlega þurfi það að fara milli staða, bæði vegna hvassviðris og hálku. Í frétt frá lögreglu er bent á að talsverði úrkomu sé spáð og líklegt að vegum verði lokað. Búist er við að Möðrudalsöræfum verði lokað í fyrramálið og mögulega einnig milli Víkur og Djúpavogs.
Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með veðurspá næstu daga. Talsverðri úrkomu er spáð, m.a. hér á Austurlandi, sem gæti fallið sem snjókomu og slydda á fjallvegum og víðar. Líklegt er að vegum verði lokað, meðal annars milli Víkur og Djúpavogs að sunnanverðu og á Möðrudalsöræfum að norðanverðu, sem gert er ráð fyrir að loki í fyrramálið.
Í tilkynningu Landsnets er varað við ísingu á raflínur á norðanverðu landinu en líka vindálagi frá hádegi á morgun og fram á miðvikudag, einkum frá Kirkjubæjarklaustri austur að Djúpavogi.