Varað við páskarigningu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. apr 2023 20:02 • Uppfært 08. apr 2023 20:05
Veðurstofan hefur gefið út viðvörun vegna rigningar á Austfjörðum á páskadag. Varað er við hættu á ofanflóðum henni samhliða.
Viðvörunin tekur gildi klukkan sex í fyrramálið, páskadag, og gildir í sólarhring. Á þeim tíma er varað við auknu afrennsli með vatnavöxtum í ám og lækjum sem skapar hættu á flóðum eða skriðuföllum. Því þarf að fara varlega nærri slíkum farvegum.
Varað er sérstaklega við skriðuhættunni á sunnanverðum Austfjörðum. Uppsöfnuð úrkoma gæti víða farið yfir 150 mm á tveimur sólarhringum með úrkomuákefð upp á 5-10 mm á klukkustund.
Frost er að fara úr efstu lögum jarðvegs en undir er enn frost þannig að yfirborð mettast af vatni sem valdið getur grjóthruni í bröttum hlíðum og jafnvel skriðuhættu.
Ekki hafa verið skráð ofanflóð á Austfjörðum síðan lítið vott snjóflóð féll í Fáskrúðsfirði síðasta sunnudag. Áfram er varað við votum snjóflóðum, sérstaklega eftir að hlýnar með rigningu eða sól, sérstaklega í miklum bratta. Fólk á ferð til fjalla getur hrint slíkum flóðum af stað.
Skemmtidagskrá sem vera átti í Oddskarði í kvöld var flutt inn í Valhöll á Eskifirði og flugeldasýningu aflýst. Ekki var hægt að opna skíðasvæðið í dag vegna hvassviðris. Árlegri ferð í Páskahelli í Norðfirði í fyrramálið hefur verið aflýst.