Varað við rigningu á Austfjörðum á morgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. apr 2022 16:40 • Uppfært 13. apr 2022 16:43
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna rigningar á Austfjörðum á morgun. Reiknað er með að úrkoman verði mest syðst á svæðinu.
Viðvörunin er fyrir Austfirði og Suðausturland. Fyrir fyrrnefnda svæðið gildir hún frá klukkan 14:00 á morgun fimmtudag til klukkan þrjú aðfaranótt föstudags en á síðarnefnda svæðinu tekur hún gildi strax klukkan níu í fyrramálið.
Á Austfjörðum er gert ráð fyrir suðaustan 8-13 m/s, mikilli rigningu og 5-10 stiga hita. Þetta hefur í för með sér vatnavexti sem aftur auka hættu á flóðum eða skriðuföllum sem valdið geta tjóni eða raskað samgöngum. Álag eykst á fráveitukerfi og er fólk því hvatt til að huga að niðurföllum.
Þar sem rigningin verður mest á sunnanverðu svæðinu eru ekki taldar líkur á að hún kalli á viðbrögð á Seyðisfirði. Vel verður þó fylgst með þróuninni á morgun og brugðist við ef staðan breytist.
Úr safni. Mynd: Sigurður Borgar Arnaldsson