Skip to main content

Varað við suðvestan hvassviðri á fjörðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. nóv 2023 10:04Uppfært 21. nóv 2023 10:05

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á Austfjörðum vegna suðvestan hvassviðris. Því fylgja talsverð hlýindi.


Viðvörunin tók gildi klukkan fimm í nótt og gildir þar til klukkan þrjú eftir hádegi. Á þessum tíma er búist við 18-23 m/s af suðvestri. Hætta er á vindhviðum við fjöll yfir 35 m/s sem getur verið varhugavert fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Hvassast verður syðst á svæðinu.

Léttskýjað verður og töluvert hlýtt. Strax klukkan níu í morgun var hitinn kominn í 13°C á Reyðarfirði, Seyðisfirði og Vopnafirði og í 10°C á Vatnsskarði.

Seinni partinn í dag dregur úr vindi og kólnar. Áfram verður strekkingsvindur næstu tvo daga þegar vindur snýst til vesturs og síðan norðvesturs. Á morgun verður hiti um frostmark og enn frekar kólnar á fimmtudag. Þá eru líkur á éljum fyrri part dags.