Skip to main content

Varað við vegblæðingum í Berufirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. mar 2022 12:08Uppfært 02. mar 2022 12:13

Vegagerðin hefur sent frá sér aðvörun vegna slitlagsblæðinga á veginum í Berufirði. Búið er að grípa til aðgerða á svæðinu og lækka hámarkshraða.


Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að hætta sé á slitlagsblæðingum á svæðinu og slitlagskögglar sem brotni af bílum geti verið varasamir. Því sé mikilvægt að hægja ferðina þegar bílar mætast og nota dekkjahreinsi ef vart verið við klæðningu í dekkjum.

Davíð Þór Eyrbekk Sigfússon, deildarstjóri þjónustudeildar Vegagerðarinnar á Reyðarfirði, segir að ábending hafi borist um blæðingarnar í gær. Þá hafi strax verið brugðist við með að bera sand ofan í þær og minnka hámarkshraða.

Blæðinganna hefur orðið vart á litlu svæði við bæinn Framnes, skammt innan við Djúpavog, en talið er rétt að fara varlegar á stærra svæði.

Davíð segir vetrarblæðinga helst verða vart í nýlegu slitlagi þegar hiti er um frostmark og vegurinn að þorna. Fylgst sé náið með ástandinu á svæðinu og gripið til aðgerða ef þurfi.