Varla agnarögn af mat lengur til spillis í Kjörbúðinni í Neskaupstað
Klara Jóhanna, verslunarstjóri Kjörbúðinnar í Neskaupstað, hafði vart fyrr sett inn færslu á samfélagsmiðla þess efnis að nú gætu viðskiptavinir fengið fyrirtaks moltu úr nýrri moltugerðarvél verslunarinnar en áhugasamir voru mættir.
Fyrir skömmu fékk Kjörbúðin til umsýslu glænýja moltugerðarvél sem nota skal til að nýta allt það litla sem þarf að henda úr versluninni. Það jafnan lítið en þó er illskárra að sögn verslunarstjórans að nýta þá það sem af fer til að búa til eitthvað annað sem fólk gæti nýtt áfram.
„Það er reyndar mjög lítið sem við þurfum að henda alla jafnan,“ segir Klara í spjalli við Austurfrétt. „Það fyrst og fremst grænmeti og hugsanlega einhverjir ávextir eða svona vörur sem hafa mjög takmarkaðan líftíma sem enda í ruslinu en við höfum samt verið afar jákvæð að gefa fólki tækifæri á að nýta það með einhverjum hætti. Gamalt brauð fer gjarnan til bænda hér í kring eða fólks sem vill bara gefa öndunum eða öðrum fuglum svo það er sáralítið sem hér fer til spillis. Eins og það á að vera að mínu mati.“
Moltugerðarvélin getur á fáeinum sólarhringum breytt alls kyns mat sem kominn er á tíma eða yfir í fyrirtaks moltu og gildir þá einu hvort um er að ræða brauð, kjöt eða grænmeti.
„Við getum sett í þessa vél allt að fimm kílóum á dag og ég held það sé rétt hjá mér að úr því skilar vélin 500 grömmum af fínni moltu. Við setjum reglulega í vélina og hún fær bara að malla yfir helgarnar til dæmis og ég myndi segja að það tekur hana svona vikutíma að breyta öllu í góða moltu. Sjálf var ég hissa að sjá hversu fljótt vélin breytir hlutunum í moltu. Þetta leit bara út eins og kaffi þegar ég tók upp úr henni fyrst.“
Þegar í dag var fólk mætt til Klöru að nýta sér ferska moltuna og hvetur verslunarstjórinn alla til að hafa samband ef einhver getur nýtt sér moltuna á einhvern hátt.
„Þetta er í raun eins og þetta á að vera. Litlu sem engu hent og það sem þó þarf að fara í ruslið nýtist samt einhverjum þarna úti.“