Varla hálfleikur í kvennabaráttunni
Skipuleggjendur Kvennaverkfallsins í Fjarðabyggð höfðu fyrirfram áhyggjur af dræmri mætingu á baráttufund þeirra í Neskaupstað í gærmorgunn. Þegar til kom dugðu bekkir íþróttahússins ekki til undir fjöldann og bæta varð töluvert af stólum í kaffisamsæti sem fram fór í Egilssbúð í lokin. Alls um 250 konur og kvár tóku þátt og ríkti gleði þó baráttunni sé hvergi nærri lokið.
Konur og kvár í Fjarðabyggð voru hvött til að mæta til fundar og kröfugöngu í Neskaupstað snemma í gær en dagurinn hófst á gerð kröfuspjalda fyrir gönguna sem farin var að ræðuhöldum loknum í íþróttahúsi bæjarins. Þar var byrjað á fjöldasöng í tilefni dagsins áður en fimm konur stigu fram og höfðu sitt að segja um hverju barátta kvenna gegnum tíðina hefði skilað og ekki síður hverju sú barátta hefði ekki breytt að ráði enn sem komið er.
Varla hálfleikur í réttindabaráttunni
Rauði þráðurinn í flestum ræðum gærdagsins var einfaldlega sú staðreynd að þrátt fyrir mikla baráttu um áratugaskeið og þrátt fyrir að eitt og annað hafi sannarlega skilað konum ávinningi sé langt í land ennþá. Ein ræðukvenna var á þeirri skoðun að það væri ekki einu sinni kominn hálfleikur í baráttunni fyrir bættum kjörum kvenna.
Þær sem til máls tóku á fundinum voru Anna Margrét Arnarsdóttir, grunnskólaleiðbeinandi, Anna Sigríður Þórðardóttir, hjúkrunardeildarstjóri, Ásdís Helga Jóhannsdóttir, varaformaður Ung-ASÍ og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfgreinafélags.
Anna Sigríður ræddi sérstaklega um það sem virtist kannski vera skref í rétta átt en væri það í raun og veru ekki. Þar var hún að meina jafnlaunastefnunni sem á að tryggja konum sömu launum og körlum fyrir sömu vinnu. Hún varð sjálf fyrir miklum áhrifum af því að fylgjast með baráttudegi kvenna í sjónvarpinu ellefu ára gömul árið 1975
„Töluvert hefur áunnist síðan þá en enn eru konur í baráttu og enn eru konur yfirgnæfandi hluti láglaunastétta. Í sjöttu grein laga númer 15 frá 2020 segir: konum og körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Þetta falleg orð en eru gjörðirnar eins?“
„Það er alltaf sama strögglið í launabaráttunni. Þar breytir engu hvort um ófaglærðar eða menntaðar starfsstéttir er að ræða. Margir benda á að jafnlaunavottun sé víða komin á og þá hljóti bara allt að vera orðið gúddí. Kvennastéttir eru láglaunastéttir og ég sé ekki hvernig stórar kvennastéttir ættu að ná hækkun launa með jafnlaunavottun. Því það eru ekki til sambærilegar stórar karlastéttir til samanburðar. Jafnlaunavottun hefur ekkert að segja þegar heilu starfsstéttunum er haldið niðri í launum. [Dæmi um það] eru heilbrigðisstofnanir sem eru stórir vinnustaðir, bornir uppi af stórum kvennastéttum. Þær svo ómissandi að þær geta ekki verið með okkur í dag. Ræstingafólk, starfsfólk í ummönnun, sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar auk annarra minni stétta eru að mestu leyti konur. 87% starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Austurlands eru konur á einum fjölmennasta vinnustað fjórðungsins. Það þarf að hækka lægstu launin, launin sem að mestum hluta í höndum kvenna. Baráttunni er alls ekki lokið.“
Hræsni og sinnileysi um kjör verkafólks
Sú síðastnefnda í ræðuhópnum, Hjördís Þóra, fagnaði mjög hversu vel var mætt á fundinn. Ekki væri vanþörf á því baráttunni væri hvergi nærri lokið. Hún tók nokkur miður góð dæmi af stöðu kvenna í hinum ýmsu mikilvægu störfum samfélagsins en sem formaður AFLs heyrir hún ljótar sögur úr atvinnulífinu reglulega. Hún tiltók sérstaklega sláandi upplýsingar um lífskjör og líðan starfsfólks í ræstingum samkvæmt nýrri könnun rannsóknarstofnunar markaðarins.
„Fyrst af öllu vil ég nefna konuna sem vinnur við ræstingarstörf hjá ræstingarfyrirtæki. Starf mitt felst í að ræsta í hinum ýmsu smærri fyrirtækjum undir mikilli pressu um að vinna hraðar án þess að það komi niður á gæðum vinnunnar. Flesta daga fer ég í 4 til 5 fyrirtæki eða alls 14 fyrirtæki í viku. Vinnutíminn minn teygist frá klukkan 8 fram undir klukkan 19 á kvöldin en greiddir tímar eru á bilinu 6 - 8 þó það taki mig 10 tíma að sinna þessu. Fæstir taka eftir mér eða undir kveðju mína þegar ég mæti, vaðið er yfir nýskúruð gólfin eins og ekkert sé eðlilegra. Ég hef ekki aðgang að salerni en stelst inn á salernin þegar enginn sér til og þörfin kallar. Enginn hefur áhuga að ræða vinnuna mína þó ég sé stolt af henni.“
„Ég vinn í leikskóla sem almennur starfsmaður í undirmannaðri deild í ærandi hávaða, undir pressu að verkefnin séu kláruð. Ég get átt von á að vera beitt höggum og jafnvel spörkum frá börninum. Stundum er ég beðin um að vinna aukavinnu og það áréttað í leiðinni að það megi ekki borga yfirvinnu. Ef ég gerist svo djörf að ætlast til að fá greitt fyrir aukavinnina er mér boðið frí í staðinn. Þegar ég tek út fríið þarf [annar starfsmaður] að vinna starfið mitt til viðbótar við sitt.“
„Ég vinn í grunnskóla sem stuðningsfulltrúi auk þess að sinna gæslu. Hér get ég átt von á meira ofbeldi frá eldri börnum en með skilaboðum um að ég verði kærð ef ég bregst við en það er brottrekstrarsök að ræða ofbeldið utan vinnustaðarins. Þöggun samfélagsins gagnvart starfsfólki er alger og geta nemendur ályktað sem svo að ofbeldi [gagnvart kvennastéttum]sé samþykkt og fara með það veganesti út í lífið.“
„Ég vinn við ummönnum aldraðra, líkamlega erfið vinna og mikil nánd sem krefst mikillar þolinmæði. Margir skjólstæðingar veikir og ekki alltaf staddir á sama stað og ég. Hér getur ofbeldið orðið svipað og í leikskólanum auk þess að fá óumbeðnar strokur og klapp. Vinkona mín vinnum við ummönnum fatlaðs fólks en hún má ekki ræða hvernig vinnuaðstæðurnar eru. Eftir að ég fór að vinna við ummönnun aldraðra hef ég áttað mig á því hvers vegna hún gengur stundum um með óútskýrt mar hér og þar á líkamanum og ég hef séð hana með glóðarauga sem hún vildi ekki fyrir nokkurn mun ræða.“
„Ég vinn í verslun, ýmist við að koma vörum fyrir í versluninni eða á kassanum. Uppálagt er að kúnninn hafi alltaf rétt fyrir sér og á að bregðast við áreiti og reiðiköstum miðað við það. Þá skiptir engu hvort reiðiköstin snúist um hvort eitthvað fáist ekki í búðinni, hvort varan kosti of mikið eða hvort viðkomandi komi í búðina eingöngu til að fá útrás fyrir innbyrgða reiði sína.“
„Ég vinn í framleiðslu á veitingastað. Hér eru kúnnarnir miskurteisir við starfsfólkið. Þeir allra verstu halda að ég sé af hundakyni og mér líki klapp og strokur, einkum á neðri hluta líkamans sem liggur vel við í þessari vinnu. Öfugt við gömlu karlana á hjúkrunarheimilinu þá veit ég fyrir víst hvað þessir menn eru að gera.“
„Ég fór að vinna í fiskvinnslu, hélt ég myndi standa og snyrta fisk. En nei, hér er ég komin inn í verksmiðju, stjórnað af færiböndum og vélum sem sjá til þess að ég hafi ekki tækifæri til annars en hafa undan þeim. Gallinn líka sá að hér skilur ekki nokkur maður það sem ég segir, mér líður eins og ég sé síðasti móhíkaninn sem talar þetta tungumál.“
Öll ofangreint störf sem Hjördís tók dæmi af eru undantekningarlítið unnin að stærstum hluta af kvenfólki. Þau eru oft lítils metin þó enginn vafi leiki á mikilvægi þeirra í samfélaginu.
Staðan verri í Póllandi
Aleksandra Rzeszowska, leikskólakennari á Fáskrúðsfirði, óskaði konum innilega til hamingju með daginn en notaði tækifærið til að benda á að staða kvenfólks í heimalandinu væri töluvert verri en gerist hérlendis. Þar hefði hagur kvenna farið batnandi en réttindi þeirra almennt ekki jafn rík og hér er. Hluti þeirrar ástæðu sé kaþólska kirkjan sem gjarnan leggst gegn ýmsu því sem konur þar í landi krefjast en kirkjan hefur djúp áhrif víða í þjóðfélaginu. Angi af því sé til að mynda nánast algjört bann á fóstureyðingar en Aleksandra sagði reyndar bjartsýni hafa aukist í landinu í kjölfar þingkosninga þar fyrir nokkrum vikum síðan. Ekki sé útilokað að þeir taki meira upp hanskann fyrir kvenfólk og kröfur þeirra.
Í lok ræðu sinnar beindi Aleksandra einmitt máli sínu til þeirra pólsku kvenna sem á staðnum voru en nokkur fjöldi þeirra fylgdist með ræðuhöldunum þrátt fyrir að hafa misjafnan skilning á hvað nákvæmlega ræðurnar snérust um.
Glimrandi mæting og gleði
Ásdís Helga Jóhannsdóttir hjá Samtökum ungs launafólks hjá Alþýðusambandi Íslands sem skipulagði daginn í fulltingi við þrjár aðrar ungar konur var himinlifandi með hversu vel tókst til og ekki síður frábæra mætingu.
„Ég óttaðist dálítið að þetta yrði fámennt en sá ótti var ástæðulaus því mætingin var frábær á fundinn, í gönguna og enn fleiri bættust í hópinn í Egilsbúð þar sem við fylgdumst saman með beinni útsendingu frá Arnarhóli í Reykjavík. Það er frábært að konur sé enn staðráðnar að standa upp og standa á sínu og einkar gleðilegt að mér sýndist konurnar vera nánast alls staðar af úr nágrannabæjum líka. Þetta tókst glimrandi vel.“
Það reyndist þó, merkilegt nokk, ekki auðvelt að fá styrk til að halda daginn hátíðlegan en hjá Alþýðusambandi Íslands er til staðar sérstakur verkfallssjóður til að auðvelda konum um allt land að fagna deginum og njóta saman. Þegar Ásdís óskaði eftir stuðningi úr sjóðnum fékk hún um tíma neitun og ástæðan sú að uppákoman á Arnarhóli í Reykjavík væri svo dýr að allt fjármagn sjóðsins færi þangað og því ekkert aukreitis til að styðja baráttuna úti á landsbyggðinni. Fyrir þrákelni Ásdísar fór svo að lokum að fjármagn fékkst austur á land.
Góð mæting úr fjölda bæja í Fjarðabyggð á kvennaverkfallsdaginn í Neskaupstað í gær og mikið klappað fyrir þeim ræðum sem haldnar voru. Þó höfðu nokkrar konur á orði hvað karlmenn sýndu þessu lítinn stuðning en næsta engir þeirra sáust á þessum baráttudegi. Mynd AE