Skip to main content

Varnargarðar við Grjótá munu hafa mikil áhrif á ásýnd Eskifjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. apr 2025 13:13Uppfært 09. apr 2025 13:18

Varnarmannvirki vegna krapa- og vatnsflóða niður farveg Grjótár verða þau mestu sem byggð hafa verið í árfarvegum á Eskifirði. Þau munu breyta mjög landslaginu í miðbænum þrátt fyrir mótvægisaðgerðir.


Þetta var meðal þess sem kom fram á íbúafundi á Eskifirði nýverið þar sem framkvæmdirnar voru kynntar. Óli Grétar Metúsalemsson, verkfræðingur frá EFLU, sagði þörf á miklum mannvirkjum þar sem Grjótáin hefði sýnt það í gegnum tíðina að hún gæti verið öflug.

Það sæist á því að farvegur hennar væri einn sá stórgrýttasti sem fyndist miðað við hversu lítil áin sé dagsdaglega. Í honum eru björg upp á 2-4 tonn að þyngd. Mikið flóð varð í ánni árið 1947.

Framkvæmdir frá ósi upp að fossi


Nýr farvegur á að geta borið allt að 500 rúmmetra á sekúndu. Til samanburðar er rennslisgeta Kárahnjúkavirkjunar 120 rúmmetrar og síðasta Grímsvatnahlaup fór upp í 1000 rúmmetra. Óli benti á að norskir verkfræðingar sem veittu ráðgjöf við hönnunina hefðu jafnvel viljað hafa farveginn enn stærri.

Framkvæmdasvæðið mun ná frá ósi árinnar upp að fossinum, um 450 metra lengd. Við fossinn verður botnbreidd farvegarins 8 metrar en 18 metrar niðri við ósinn. Byrjað verður á að hreinsa farveginn áður en ráðist verður í dýpkun hans og gerðar rásir til að beina ánni ákveðna leið. Alls er gert ráð fyrir að grafa upp um 32.000 rúmmetra af efni, þar af tæplega 3.000 rúmmetra af klöppum.

Næst fossinum verða byggðir tveir leiðigarðar, sá innri 120 metra langur en sá ytri 190 metrar. Þeir verða 2-6 metrar á hæð og hallinn á þeim 20%. Neðan þeirra verða bakkar árinnar styrktir með grjóthleðslum og steyptum veggjum.

Inngrip í byggðina


Við ytri kant vegarins sem liggur niður með Grjótánni verður byggður leiðiveggur úr grjótkistum, 90 metra langur og 1,2-1,9 metrar á hæð. Færa þarf til vegi og byggja tvær nýjar býr, hvora um 20 metra langa, yfir ána.

„Þetta mun hafa mikil áhrif á ásýnd bæjarins, við getum ekki neitað því,“ sagði Þórhildur Þórhallsdóttir, landslagsarkitekt frá Landmótun. Fyrirtækið hefur hannað og leiðbeint við frágang fjölmargra ofanflóðamannvirkja síðustu ár. „Þetta er inngrip í byggðina með stóru framkvæmdasvæði í fjögur ár. Því verða óþægindi af ýmsum ástæðum,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri.

Fjarlægja þarf fjögur hús og gróður


Framkvæmdasvæðið verður um þrír hektarar og teygir sig um 120 metra upp fyrir efsta hús. Mest áhrif verða á þær lóðir sem næstar eru framkvæmdasvæðinu, inn á þær þarf að fara. Þórhildur boðaði gott samtal við eigendur þeirra. Þrír bílskúrar og svokallað olíuhús sem standa meðfram ánni þurfa að víkja. Einnig talsvert af gróðri, meðal annars gamlir skógarreitir og falleg tré.

Til að mæta þessum miklu áhrifum verður reynt að græða upp í hringum veggina og fella inn í landslagið. Þórhildur ræddi einnig hvað hægt væri að gera með lýsingu. Áningarstaður verður gerður niðri við Strandgötu. Minni áhrif verða á umferð á framkvæmdatíma en af öðrum ofanflóðavörnum á Eskifirði.

Á fundinum var töluvert spurt út í umferðina, til dæmis umferð neyðarbíla eftir Bleiksárhlíð meðan ný brú verður byggð þar. Ljóst er að þann tíma verður lokað fyrir almenna umferð og trúlega er of þröngt til að hjáleið fái fyrir neyðarbíla, þótt það standi til að skoða nánar. Reynt verður að velja framkvæmdatíma brúarinnar með hliðsjón af þörfum skólabarna sem fara gjarnan um svæðið. Einnig var mikið spurt út í öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda þar sem há mannvirkin, eins og leiðiveggurinn, geta byrgt ökumönnum sínum.

Náttúran kemur á óvart


Á fundinum var einnig nokkuð spurt út í hvort þörf væri á þetta miklum mannvirkjum, hvort ekki væri hægt að hreinsa farveginn til að tryggja um hann gott flæði og hvort nægt efni væri eftir í fjallinu til að magna upp stór aurflóð. Eins var spurt hvort hægt væri að beita öðrum vörnum, svo sem gildrum ofar í fjallinu.

Kristín Martha Hákonardóttir frá ofanflóðasjóði svaraði því að sú hönnum sem nú væri kynnt byggði á hættumati og lausnum sem upphaflega hefðu verið gerðar fyrir 20 árum. Með framkvæmdunum nú eigi allar hættulínur að fara inn fyrir farveginn. Hún benti einnig á að náttúran kæmi á óvart, eins og sannast hefði í snjóflóðum síðustu ára í Neskaupstað og á Flateyri.

Framkvæmdir frá 2027


Þá var einnig spurt út í hljóðvist og nefnt að varnargarðar við Lambeyrará mögnuðu upp nið hennar með bergmáli. Að lokum var bent á að æskilegt væri að geta komið tækjum að farvegunum til að hreinsa upp úr þeim ef efni bærist niður í miklum flóðum. Jóna Árný svaraði að erfitt væri að koma tækjum að með góðu móti en bæjarráð Fjarðabyggðar hefði bent á nauðsyn þessa í sínum umræðum.

Á fundinum kom fram að áætlað er að bjóða verkið út á næsta ári. Áður höfðu stjórnendur Fjarðabyggðar vonast til að það yrði gert nú í ár þannig vinnan hæfist jafnvel í haust. Kristín Martha sagði að miðað við útboð á næsta ári myndu framkvæmdir hefjast árið 2027 og standa í fjögur ár. Nú þegar lokahönnun varnarmannvirkjanna liggur fyrir verður hægt að halda áfram með gerð deiliskipulags fyrir miðbæ Eskifjarðar.

Grafík: Efla

eskifjordur grjota honnun efla