Vatnsboranir að hefjast á Vopnafirði
Boranir eftir bæði heitu og köldu vatni eru að fara í gang á Vopnafirði. Aðalmarkmið heitavatns leitarinnar í Selárdal er að styrkja vatnsöflun sundlaugarinnar þótt alltaf lifi í vonum um að nóg finnist til að hitaveituvæða Vopnafjörð.Sérfræðingar frá ÍSOR komu til Vopnafjarðar í vor til að kanna hvar vænlegast væri að bora eftir heitu vatni. Niðurstöður þeirra rannsókna eru komnar til Jarðfræðistofunnar Stapa sem aðstoðar Vopnafjarðarhrepp við leitina en Borbræður munu bora.
Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri, segir aðalmarkmið borunarinnar í Selárdal vera að styrkja vatnsöflun fyrir sundlaugina þótt alltaf sé gælt við hugmyndir um að nógu heitt og nógu mikið af heitu vatni sé þar til að hitaveituvæða þéttbýlið á Tanga.
„Að detta niður á góða æð væru björtustu vonir okkar en fyrst og fremst erum við að styrkja sundlaugina. Þetta er eini staðurinn í Vopnafirði þar sem heitt vatn hefur fundist en við vitum að það þarf mikla vinnu og heppni til að hitta á góðar æðar. Þetta verður ein borhola og mögulega fleiri ef eitthvað finnst,“ segir hann.
Sundlaugin og veiðihúsið við Selá nýta í dag heitt vatn úr borholum í Selárdal. Borað verður nokkru fyrir innan sundlaugina, á landi sem tilheyrir veiðihúsinu eða Six Rivers. Samkomulag er fyrir hendi um borunina.
Valdimar segir að auki hafi verið ákveðið að nýta tækifærið og bora tvær kaldavatnsholur inni í Vesturárdal. Þörf sé að styrkja neysluvatnskerfi Vopnafjarðar eftir að rask varð á því í vatnavöxtum fyrir nokkrum árum.
Búið er að leggja slóða að öllum borstöðunum og beðið þess að borinn mæti á staðinn, sem samkvæmt áætlun er eftir miðjan ágúst.