Skip to main content

Veggjalús finnst oftar á Austurlandi en flestir átta sig á

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. sep 2023 10:47Uppfært 25. sep 2023 10:56

Heilbrigðiseftirliti Austurlands (HAUST) berast árlega tvær til þrjár tilkynningar um hina leiðigjörnu veggjalús og þar fyrst og fremst frá hótelum og gististöðum.

Þetta staðfestir Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST, í samtali við Austurfrétt og segir slíkan fjölda tilkynninga hafa borist allar götur frá því að hún hóf störf hjá eftirlitinu árið 2016. Biti slíkra skordýra fylgja bæði útbrot og töluverður kláði.

„Það er sannarlega meira um þetta en fólk heldur. Veggjalúsin er orðinn fastur fylgifiskur hótela og gistihúsa hérlendis ekkert síður en gerist úti í löndum. Ýmsir halda að svona nokkuð finnist bara á Spáni og slíkum stöðum en svo er ekki. Veggjalúsin berst með fatnaði og í ferðatöskum og slíku og kemur sér fyrir í hlýjum vistarverum hvar sem fólk drepur niður fæti hvort sem er á Austurlandi eða annars staðar.“

Lára segir þetta töluvert feimnismál almennt hjá gistihúsaeigendum en á ekki að vera það því þetta tengist ekki óþrifnaði eða slíku. Ferðafólk sem hefur viðkomu á mörgum stöðum á ferðalagi getur dreift veggjalús víða á skömmum tíma. Sjálf segist Lára ávallt byrja á að fletta upp lakinu á þeim gististöðum sem hún dvelur á því oftar en ekki má sjá ummerki þar ef einhver eru.

Berist slíkur ófögnuður í herbergi getur verið afar kostnaðarsamt að eiga við málið. Hringja þarf strax í meindýraeyði, henda þarf dýnum og öðru slíku í herberginu og halda því lokuðu í tiltekinn tíma. Það muni um slíkan kostnað fyrir marga smærri aðila á borð við þá sem reka heimagistingu.

Mynd af vef Umhverfisstofnunar af veggjalús í mjög stækkaðri mynd. Þessi ófögnuður gerir árlega vart við sig á Austurlandi sem annars staðar.