Skip to main content

Vegir austanlands að koma hvað best undan vetri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2022 09:53Uppfært 22. apr 2022 09:54

Þrátt fyrir afar rysjótta tíð í vetur hefur tekist að halda vegum á Austurlandi betur í horfi en víðast annars staðar á landinu.

Þetta staðfestir Davíð Þór Eyrbekk Sigfússon, flokksstjóri hjá Vegagerðinni, við Austurfrétt en í fyrr í vikunni sendi stofnunin frá sér tilkynningu um sjaldan eða aldrei hafi verið meira um holur í vegakerfi landsins að vetri loknum og vegfarendur beðnir að fara með gát þess vegna.

Þetta má glögglega sjá á ferðaupplýsingakorti Vegagerðarinnar þar sem viðvaranir vegna slæms ástands vega eru í gildi afar víða og einna verst er ástandið á vestur- og suðvesturlandi.

Davíð segir að þó finna megi slæma kafla hér austanlands og þá sérstaklega á Upphéraðsvegi og Borgarfjarðarvegi hafi tekist að halda vegum almennt í þokkalegu standi.

Við höfum ekki orðið varir við aukningu í holum á svæðinu miðað við síðustu ár. Okkar menn hafa verið duglegir við að halda vegunum í þokkalegu standi. Einu kaflarnir sem við viljum vara við eru á framkvæmdasvæðum á Upphéraðsvegi og Borgarfjarðarvegi, á þessum framkvæmdarköflum geta vegir verið grófir miða við það sem fólk er vant.

Mynd: Frá Borgarfjarðarvegi fyrir nokkrum árum síðan. Þó stöku vegkaflar séu slæmir er staðan almennt mun betri austanlands en víðast annars staðar.