Vegurinn yfir Öxi áfram með þeim hættulegri á landinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. sep 2025 16:17 • Uppfært 08. sep 2025 16:23
Vegurinn yfir Öxi er sá vegur þar sem flest slys verða miðað við umferð á vegum í dreifbýli samkvæmt tölfræði frá Samgöngustofu. Vegurinn hefur verið í efsta sæti þar undanfarin ár. Slys í umferðinni á Austurlandi voru töluvert færri en undanfarin ár.
Þetta kemur fram í samantekt Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi sem stofnunin gefur út árlega. Axarvegur hefur undanfarin ár verið hæstur vega í dreifbýli miðað við fjölda slysa á ekna kílómetra.
Á árunum 2020-2024 urðu þar 15 slys eða 5,2 slys á hverja 1.000 bíla. Siglufjarðarvegur er næstur með 5 slys á hverja 1.000 bíla. Þessir tveir vegir eru í sérflokki því Ólafsfjarðarvegur er þriðji með 3,01 slys á hverja 1.000 bíla. Axarvegur hefur verið í toppsætinu undanfarin þrjú ár.
Umferð yfir Öxi virðist fara vaxandi, miðað við tölur frá teljurum Vegagerðarinnar. Árið 2019 var meðalumferð yfir Öxi á dag 202 bílar og 436 á dag að sumri, en í fyrra 249 að meðaltali á dag yfir árið og 531 á hverjum sumardegi. Eins sýna tölurnar vaxandi þunga á Öxi samanborið við teljara frá Streiti, sem er hinn kosturinn milli Djúpavogs og Egilsstaða. Umferðin yfir Öxi í ágúst var 711 bílar á dag samanborið við 693 framhjá Streiti. Streiti hefur vinninginn aðra mánuði en það sem af er ári hefur munurinn verið lítill í öðrum mánuðum en janúar og febrúar.
Helst meiðsli niður í Jökuldal
Fleiri vegkaflar á Austurlandi eru á listanum yfir þá vegi í dreifbýli þar sem flest slys eru miðað við ekna kílómetra en alls eru taldir upp 20 slysahæstu kaflarnir. Vegurinn niður í Jökuldal er með 2,39 slys á 1.000 bíla, í Álftafirði með 2,29, leiðin yfir Fjarðarheiði frá Gagnheiði til Seyðisfjarðar með 2,01 en niður í Hérað með 1,66, leiðin yfir Fagradal með 1,93 en síðan niður meðfram Grænafelli til Reyðarfjarðar með 1,66.
Öxi er hins vegar ekki á listanum yfir vegi í dreifbýli þar sem flest slys með meiðslum verða miðað við ekna kílómetra. Þar er Hringvegurinn niður í Jökuldal efstur af austfirsku vegunum og sá fimmti á landsvísu með 0,85 slys með meiðslum á hverja 1.000 bíla. Leiðin yfir Fagradal er einnig neðarlega á listanum með 0,51 slys með meiðslum á hverja 1.000 bíla.
Óvenju fá umferðaróhöpp í fyrra
Heilt yfir virðist umferðin á Austurlandi hafa gengið vel í fyrra. Á svæðinu eru 38 einstaklingar skráðir slasaðir eða látnir, sem er lægsti fjöldi frá árinu 2020 og sá næst lægsti undanfarin tíu ár. Vert er að halda því til haga að ekkert banaslys varð í fjórðungnum í fyrra.
Umferðarslys á Austurlandi verða langflest utan þéttbýlis. Það sést á því að fimm af sjö af alvarlegum slysum í fyrra urðu utan þéttbýlis, 33/38 af þeim sem slösuðust voru á slíkum vegum og alls eru 157/220 skráðum slysum utan þéttbýlis. Þéttbýlisóhöppin eru langflest á Egilsstöðum og í Neskaupstað.
Á Austurlandi voru 32,5 slasaðir einstaklingar á hverja 10.000 íbúa. Hlutfallið er lágt miðað við landsbyggðina, en það er lægst á höfuðborgarsvæðinu, þótt þar verði flest slys, einkum á stórum gatamótum út frá Miklubraut.