Veik ríkisstjórn gerir lítið til að draga úr spennu á vinnumarkaði

Mikilvægt er að aðrar hreyfingar launþega sem og stjórnvöld og atvinnulíf fylgi eftir nýjum kjarasamningnum á almenna vinnumarkaðinum til að markmið þeirra, meðal annars um lægri vexti, náist. Enn sem komið er virðist lítið hafa gerst hjá stjórnvöldum.

Þetta var meðal inntaks 1. maí ávarps AFLs Starfsgreinafélags, sem flutt var víða um fjórðunginn í gær.

Þar segir að í nýgerðum kjarasamningum hafi verið samið um hógværar launahækkanir í trausti þess að þannig mætti ná tökum á verðbólgu og háum vöxtum. Enn séu fá merki um að þær vonir rætist á næstu vikum eða mánuðum.

Enn er ósamið við opinbera starfsmenn og háskólamenntað starfsfólk. „Óvíst er hvort það fylgir fordæmi okkar,“ segir í ávarpinu.

Þá er komið inn á að engin loforð hafi legið fyrir frá stjórnvöldum þótt treyst hafi verið á að þau og fjármálastofnanir myndu eftir undirritun leggja sitt af mörkum. „Sú veika ríkisstjórn sem nú situr við völd – rúin trausti og fylgi – sýnir fá merki þess að taka þátt í þessu verkefni. Það er halli á fjárlögum og útlit fyrir áframhaldandi halla. Ríkissjóður er þannig ekki að leggja af mörkum til að minnka spennu í efnhagskerfinu og kyndir þess í stað undir verðbólgu.

Nýjustu spár bankanna gera ráð fyrir óbreyttu vaxtastigi fram undir áramót þannig að væntar vaxtalækkanir bæta ekki kjör launafólks á þessu ári. Ennfremur er búist við áframhaldandi verðbólgu vel umfram markmið Seðlabanka og umfram launahækkanir samningsins.

Stjórnvöld og atvinnulífið verða að skilja að launafólk hefur lagt sitt af mörkum og að við munum fylgjast með efndum og að við munum fylgja forsenduákvæðum eftir.“

Samningurinn er til fjögurra ára en hægt er að segja honum upp haustið 2025 hafi markmið um verðbólgu ekki náðst.

Frá undirritun kjarasamninga í vetur. Mynd: ASÍ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.