Veitingamenn kvarta til samkeppnisyfirvalda: Fljótsdalshérað niðurgreiðir rekstur Valaskjálfar

valaskjalf_web.jpgEigendur gisti- og veitingahúsa á Fljótsdalshéraði hafa kvartað til Samkeppnisyfirlitsins vegna rekstrarfyrirkomulags félagsheimilisins Valaskjálfar. Þeir segja það lítillækkandi að keppa við rekstur sem niðurgreiddur sé af sveitarfélaginu.

 

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað rifti seinasta haust samningi við leigutaka félagsheimilishluta Valaskjálfar eftir drátt á leigugreiðslu og samskiptaerfiðleika við leikhópa. Húsnæðið var auglýst til leigu en auglýst var tvisvar þar sem tilboðin sem bárust í fyrra skiptið þóttu ekki ásættanleg. Í upphafi árs var samið við Hótel Egilsstaði.

Það fyrirtæki tilheyrir Hringhótelum sem á húsnæðið í heild sinni, en leigir félagsheimilið áfram til sveitarfélagsins. Þetta fyrirkomulag leggst illa í samkeppnisaðila á svæðinu sem hafa kvartað til samkeppnisyfirvalda.

„Það voru að ég held allir leyfishafar í sveitafélaginu með í þessu og það var töluverður hiti í mönnum“ segir Þráinn Lárusson sem rekur Hótel Hallormsstað. „Þessi endurleigusamningur við eigendur hótelsins er bara eins og grútskítug gólfrýja í andlit annarra veitingaleyfishafa í sveitarfélaginu.“

Í ljósi þess að sveitarfélagið sitji uppi með samninginn sé fyrsta skrefið að loka eldhúsinu. „Fólk verður að átta sig á því að ef veitingahús eiga að þrífast hér í sveitarfélaginu þá er frumskilyrði að íbúarnir hafi við þau viðskipti, öðruvísi gengur slíkur rekstur ekki upp.“

Gunnlaugur Jónasson, sem rekur Gistihúsið á Egilsstöðum, segir það „lítilsvirðingu“ og „með öllu óásættanlegt“ að sveitarfélagið greiði niður rekstur eins samkeppnisaðila. Nógu erfitt sé að halda þjónustunni gagnandi yfir vetrartímann.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir markmið nýja samningsins hafa verið að glæða menningarlíf á Héraði. Fyrstu aðgerðir nýs leigutaka bendi til þess að það takist. Hann viðurkennir að það geti „orkað tvímælis að sveitarfélagið taki á sig skuldbindingar eins og þær sem felast í langtímaleigusamningi á umræddu húsnæði sem síðan er endurleigt aðilum á lægra verði en sveitarfélagið greiðir.“ Hann segir erfitt að gera svo öllum líki en markmiðið sé ekki að vega að þeirri starfsemi sem fyrir er.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.