Veittu 39 milljónum til samfélagsverkefna á Fáskrúðsfirði

Hjúkrunarheimilið Uppsalir, Hollvinasamtök Skrúðs, björgunarsveitin Geisli og ungmennafélagið Leiknir voru meðal þeirra aðila sem fengu duglegan styrk frá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunni á aðalfundum þeirra á föstudaginn var. Heildarstyrkupphæðin 39 milljónir króna og er veglegasta úthlutun frá upphafi.

Hæsta framlagið að þessu sinni fór til Ungmennafélagsins Leiknis eða átján milljónir króna og sagði Vilberg Marinó Jónsson, formaður, af þessu tilefni að styrkurinn væri „þungt lóð á vogarskálarnar við rekstur félagsins.“ Hann væri nógu drjúgur til að stofna hugsanlega nýjar deildir innan félagsins auk þess að gera mönnum mögulegt að stilla æfingargjöldum öllum vel í hóf og þannig jafna möguleika barna og ungmenna til íþróttaiðkunar.

Hjúkrunarheimilið Uppsalir naut ekki síður góðs af framlagi að þessu sinni en ákveðið var að veita styrk til kaupa á tíu sjúkrarúmum auk tilheyrandi búnaðar. Það var fyrst og fremst fyrir drifkraft tveggja starfsmanna heimilisins, þeim Hrefnu Eyþórsdóttur og Bjarnheiði Pálsdóttur, sem styrkurinn fékkst en þær sóttu um að eigin frumkvæði og án vitundar stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem rekur heimilið.

Félag um Franska daga hefur fengið hjálp með styrkveitingum mörg síðustu árin og svo var einnig nú en fjórar milljónir króna eru nú aukreitis í bankanum til að gera þessa þekktu bæjarhátið enn veglegri en ella. Styrkurinn gerir forsvarsmönnum Franskra daga kleift að bjóða alla barnadagskrá hátíðarinnar án endurgjalds að sögn Maríu Ósk Óskarsdóttur Snædal.

Sem og undanfarin ár fengu bæði Hollvinasamtök Skrúðs og björgunarsveitin Geisli sitt hvora milljónina og síðast en ekki síst fóru tíu milljónir króna til starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar sem heldur úti fjölbreyttri afþreyingu og ferðum fyrir starfsfólk útgerðarinnar allt árið um kring.

Styrkþegar brostu auðvitað út að eyrum á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar á föstudaginn var en Kaupfélagið er meirihlutaeigandi í útgerðarfyrirtækinu og fjöldi bæjarbúa eiga þar hlutabréf. Mynd LVF

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.