Vel gekk að aðstoða súralsskip í vandræðum í Reyðarfirði
Bilun varð í vélbúnaði súrálsskipsins Clear Sky sem var á leið inn Reyðarfjörð með fullfermi snemma á laugardaginn var. Þurfti að kalla Landhelgisgæsluna til aðstoðar þar sem skipið var of þungt fyrir dráttarbáta á svæðinu en fljótt og vel gekk að draga skipið til hafnar á Mjóeyri þegar Þór kom á svæðið.
Skipið var á leið til Mjóeyrarhafnar með fullan farm súrals fyrir álver Alcoa Fjarðaáls þegar bilunin varð í mynni fjarðarins. Sökum stærðar skipsins og farmsins varð fljótt ljóst að leita þyrfti til Landhelgisgæslunnar með aðstoð og hélt varðskipið Þór þegar af stað frá Dalvík þar sem skipið átti að taka þátt í Sjómannadeginum þar í bæ.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, var varðskipið tólf tíma á stími til Reyðarfjarðar en eftir að þangað var náð gekk mætavel að koma taug í súralsskipið og flytja það til hafnar þar sem viðgerð hófst strax.
„Þarna lá auðvitað töluvert á sökum slæmrar veðurspár framundan og því siglt á miklum hraða austur til aðstoðar. Bæði er skipið stórt og þungt, margir um borð og það að auki með fullan farm. Þór var kominn á staðinn um klukkan 23 og lokið við að toga skipið í höfn um tveimur tímum síðar.“
Aðspurður um hvort Þór verði staðsettur á Austurlandi í aðdraganda óveðursins sem spáð er næstu daga segir hann ekki svo vera. Skipið hafi verið síðustu vikur á svokölluðum vitatúr í samvinnu við Vegagerðina.
„Þór er útaf Langanesinu núna og heldur norður á bóginn. Á þessum vitatúr fer varðskipið hringinn um landið og kannar ástandið á vitum, sjómerkjum og baujum og slíku.“
Mynd sem Óskar Kristófer tók skömmu eftir að varðskipið Þór hafði náð súrálsskipinu Clear Sky í tog og hélt með það til hafnar.