Skip to main content

Vel gengur að rampa upp Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. ágú 2023 11:20Uppfært 25. ágú 2023 11:20

Starfsmenn verkefnisins Römpum upp Ísland hafa í vikunni verið að störfum í Fjarðabyggð. Þar stendur til að setja upp 20 rampa við verslanir og þjónustufyrirtæki.


Byrjað var á mánudaginn og hefur verkið sóst vel. Eftir helgi er stefnan sett á Breiðdalsvík og á vinnu þar að ljúka á miðvikudag. Þar með lýkur vinnu Römpum upp Ísland þetta sumarið.

Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Uneo, var hvatamaðurinn verkefnisins sem fór af stað í Reykjavík. Starfssvið þess var síðar útvíkkað upp í 1500 rampa um allt land fyrir árið 2025.

Það hefur gengið vel og eru ramparnir nú komnir á níunda hundraðið. Í sumar hefur verið farið á milli landshluta og ákveðið að ljúka vinnunni á Austfjörðum en fyrr í mánuðinum var unnið í Múlaþingi.

Sveitarfélög ásamt þeim fyrirtækjum sem taka þátt í verkefninu kosta flutning á efni, gistingu og vistir fyrir starfsmenn verkefnisins en það leggur til vinnuna. Tilgangur verkefnisins er að auðvelda aðgengi hreyfihamlaðs fólks að þjónustustofnunum, verslunum og veitingastöðum.

Mynd: Fjarðabyggð