Skip to main content

„Vel rekinn sjávarútvegur kemur öllum til góða“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. mar 2022 12:05Uppfært 10. mar 2022 12:08

„Það er alltaf mikið talað um veiðigjöldin og hversu lág þau eru á greinina en reyndin er að þau eru aðeins brot af því skattspori sem sjávarútvegsfyrirtækin greiða árlega í ríkissjóð,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Samtökin hófu sérstaka fundaherferð fyrir skemmstu þar sem forsvarsmenn fara um ýmsa staði á landinu og halda þar sérstaklega á lofti hve áhrif vel rekins sjávarútvegs ná víða inn í íslenskt samfélag.

Einn þessara funda fór fram á miðvikudaginn á Eskifirði og þar sagði Heiðrún engan vafa leika á gildi sjávarútvegs fyrir þjóðarbúið í heild. Hann sé mikilvægur fjölda annarra atvinnugreina í landinu enda sé mikill fjöldi afleiddra starfa í landinu sem oft er ekki tekið tillit til.

Tekjurnar háar í samhenginu

Heiðrún sagði ekki fara mikið því en laun í sjávarútveginum öllum séu góð og í tilvikum þau hæstu á landsvísu. Þar vísar hún til launa sjómanna á íslenskum skipum en samkvæmt Hagstofu Íslands námu staðgreiðsluskyldar mánaðar launagreiðslur sjómanna rúmlega 1,3 milljónum króna á síðasta ári. Það tvöfalt hærri launatekjur en að meðaltali í landinu öllu.

„Þar er auðvitað ekki verið að taka tillit til fjölda vinnustunda enda getur dagurinn orðið langur á köflum á sjó en hverjum dytti í hug að launahæsta stétt landsins væru sjómenn?“

Góðar tekjur eru ekki einskorðaðar við veiðar á hafi úti. Launagreiðslur til handa starfsfólki í fiskeldi námu á sama ári að meðaltali 764 þúsund krónum og í fiskvinnslu reyndist staðgreiðsluskyldar launagreiðslur vera um 663 þúsund krónur per mánuð.

Arðgreiðslur lægri en í öðrum geirum samfélagsins

Heiðrún hafnaði því alfarið í máli sínu að útgerðarmenn væru að greiða sér mun hærri arð en gengur og gerist og benti á tölur Hagstofunnar í því samhengi máli sínu til stuðnings. Þar kemur fram á meðaltal arðgreiðslna sem hlutfall af hagnaði 2011 til 2020 var 34 prósent hjá útgerðinni en 50 prósent utan þess geira.

Olíunotkun minnkar en betur má gera

Velflest fyrirtæki reyna nú sitt besta til að minnka olíunotkun sína og þar með kolefnisfótsporið. Sjávarútvegsfyrirtækin taka þau mál alvarlega að sögn Heiðrúnar. Heildarolíunotkun við bæði veiðar og vinnslu var árið 2020 um 138 þúsund tonn en var þegar verst lét árið 1996 324 þúsund tonn árlega.

Heiðrún segir útvegsmenn mjög horfa til þess að minnka olíunotkun frekar en það sé ekki einfalt mál nú þegar raforkuskortur hefur gert vart við sig en ekki síður vegna þess að endurnýjun flotans með nútímalegri og sparneytnari skipum kosti háar upphæðir. Samtökin hafi leitað til stjórnvalda í von um hugsanlega aðstoð í þeim efnum en án árangurs hingað til.