Vel tekið í gjaldfrjálsa brotajárnshreinsun í sveitum Múlaþings

Þeir sem af vita hafa aldeilis tekið vel í það framtak Múlaþings í ágúst að bjóða fólki í dreifbýlinu gjaldfrjálst að fá til sín aðila til að losna við málm- eða brotajárnrusl af jörðum sínum. Árangurinn mun betri en á síðasta ári þegar sveitungum var aðeins boðið að koma brotajárnsrusli sínu sjálfir í gáma á tilteknum stöðum.

Það staðfestir Hörður Ólafur Sigmundsson hjá Hringrás á Reyðarfirði sem séð hefur um að taka það brotajárn sem bændur vilja losna við undanfarnar vikur.

Þetta annað árið sem Múlaþing býður dreifbýlisíbúum sínum gjaldfrjást upp á slíka þjónustu en munurinn frá því í fyrra sá að nú er allt sótt á staðinn í stað þess að íbúar þurfi sjálfir að koma drasli sínu á tiltekinn stað.

„Við höfum verið að bjóða upp á þetta hjá Fjarðabyggð síðustu árin og Múlaþing ákvað að bjóða slíkt líka í fyrra,“ segir Hörður. „Árangurinn þá var allt í lagi en ég lagði fljótlega til að boðið yrði upp á þessa þjónustu beint að býli að því gefnu að fólk kæmi sínu brotajárni fyrir á einum og sama staðnum. Það var gert nú og árangurinn er töluvert betri og við enn að og verðum það út þessa viku ef ekki lengur.“

Aðspurður segir Hörður að langflestir sem viti af framtakinu nýti sér þjónustuna til að bæði henda gömlu járnarusli sem gnótt sé af víða en ekki síður sé yngra fólki í sveitunum mikið í mun að laga beinlínis til og gera jarðir sínar fallegri.

„Það er mjög áberandi að yngra fólk sem ekki hefur djúp tilfinningaleg tengsl við gömul ryðguð tæki eða bíla eða eitthvað slíkt á jörð sinni vill fjarlægja sem mest og það vissulega verið mun meira að gera en í fyrra þegar fólk þurfti sjálft að koma brotajárni á ákveðinn stað. Það enda ekki eðlilega á færi allra að fjarlægja bílflök eða stærri tæki af jörðum sínum sísona.“

Áhugasamir þurftu að skrá sig fyrir 19. ágúst síðastliðinn til að fá þjónustuna heim í bæ en að sögn Harðar hefur komið í ljós að allmargir bændur og jarðeigendur höfðu enga hugmynd um að slík þjónusta væri í boði.

„Þetta var auglýst í Dagskránni auðvitað og á vef Múlaþings en það eru bara ekki allir sem fá Dagskrána heim til sín eða lesa þann vef og ég fengið töluvert af símtölum frá fólki sem tók bara eftir okkur því við vorum að sækja eitthvað á næsta bæ. En engu að síður áberandi betri árangur nú en fyrir ári sem er jákvætt og allt fer þetta efni beint í endurvinnslu frá okkur. Því meira sem við fáum því betra.“

Sjaldan verið auðveldara fyrir íbúa dreifbýlisins að losa sig við gamalt, úrelt járnarusl eða málma sem nóg er af á mörgum jörðum Múlaþings. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.