Vel tekist að manna skóla í Fjarðabyggð
Smávægilegar mannabreytingar hafa orðið frá vorinu en að mestu verið vandræðalaust að manna alla skóla í Fjarðabyggð þetta haustið að sögn stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu sveitarfélagsins.
Hið eina sem á hefur bjátað í byrjun nýs skólaárs í sveitarfélaginu samkvæmt upplýsingum frá nýjum stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu innan sveitarfélagsins, Önnu Marín Þórarinsdóttur, er að ekki tókst að ljúka vinnu í tæka tíð í húsnæði Tónlistaskóla Eskifjarðar sem átti að opna samtímis öðrum skólum. Þar og víðar í skólanum eins og í íþróttahúsinu fannst mygla eins og kunnugt er síðastliðinn vetur en þau vandamál koma að öðru leyti ekki niður á skólahaldi nú. Anna staðfestir að tónlistarskólinn mun opna í næstu viku.
Vegna lokunar íþróttahússins á Eskifirði hefur verið brugðið á það ráð að aka nemendum í íþróttakennslu á Reyðarfirði og verður svo áfram skólaárið.