Vel yfir 300 manns bjóðast til að skutla til og frá Egilsstaðaflugvelli

Þegar þetta er skrifað hafa vel rúmlega 300 einstaklingar skráð sig í hópinn Skutl til og frá Egilsstaðaflugvelli sem settur var á laggirnar í gærdag. Hugmyndin er að í stað þess að greiða drjúgar upphæðir fyrir bílastæði við völlinn skiptist meðlimir á að skutla eða sækja aðra meðlimi þegar kostur er á.

Það er Sveinn Snorri Sveinsson sem stofnaði hópinn formlega og ástæðan einfaldlega sú að hann, líkt og margir aðrir, er afar ósáttur við bílastæðagjöld þau er tekin voru upp við flugvöllinn nýverið. Hann segist vonast til að ef nógu margir taki þátt geti íbúar á svæðinu bæði komist til og frá sér að kostnaðarlausu og mótmælt þessari gjaldtöku um leið.

„Það hafa nú skráð sig einir 336 einstaklingar í hópinn á facebook og öllum frjáls að koma og taka þátt í þessu með okkur. Ég á von á að við byrjum formlega á laugardaginn kemur og í kjölfarið þarf auðvitað að ríkja traust milli þeirra sem þátt taka til að þetta gangi upp okkur öllum til heilla.“

Í því skyni að allt gangi þetta upp hefur Sveinn sett upp nokkrar reglur fyrir þátttakendur sem enn gæti þó tekið breytingum áður en yfir lýkur enda skuli hópurinn vera lýðræðislegur og allar skoðanir teknar til umræðu innan hópsins.

Meðal reglanna eru að samskipti um skutl skuli fara fram í kommentakerfinu svo allt sé vel sýnilegt og fólk gangi ekki bak orða sinna. Komi eitthvað upp á hjá einstaklingi sem lofar skutli verður viðkomandi að skylt að útvega far með öðrum hætti og ef félagi þiggur skutl en endurgeldur ekki greiðann tvisvar sinnum er það brottrekstrarsök.

Sveinn segir reglurnar svona til að koma skikki á hlutina til að byrja með en þeim megi auðvitað breyta sýnist fólki svo.

„Aðalatriðið í svona hóp er að viðhaldi traustinu milli þeirra sem eru með. Það þarf aðeins eitt skipti þar sem ekki er staðið við sitt til að þurrka út traust á hópnum svo það þarf að passa vel. En á hinn bóginn getur þetta verið töluverður sparnaður fyrir þá sem þurfa oft í flug eða þurfa að vera lengi burtu fyrir utan auðvitað að sýna Isavia að við hér austanlands getum alveg staðið saman þegar á þarf að halda. Ég vona sannarlega að þetta gangi upp og hvet alla til að koma með okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.