Skip to main content

Velheppnuð makrílvertíð að baki hjá Síldarvinnslunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. sep 2025 13:14Uppfært 15. sep 2025 16:18

Allra síðasti makrílfengur ársins fór til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar (SVN) á föstudaginn var þegar Beitir NK kom úr Smugunni með 350 tonn af þeim fiskinum auk 150 tonna af góðri síld. Nú er unnið myrkranna á milli í verinu að vinna síld sem á land kemur.

Makrílveiðarnar þessa vertíðina gengu almennt mjög vel að sögn Geirs Sigurpáls Hlöðverssonar, rekstrarstjóra fiskiðjuvers SVN, í samtali við Austurfrétt.

Aðeins eru um 20 ár síðan makríll fór að veiðast í einhverjum mæli austur af landinu en síðan þá hefur mikilvægi þeirra veiða aukist jafnt og þétt enda vinsæll matfiskur víða um lönd þó lítið sé hann enn á borðum Íslendinga.

„Heilt yfir hefur þetta verið hreint ágætis makrílvertíð hjá okkur. Eins og áður er fiskurinn dálítið misjafnt eftir því hvenær veiðin fór fram. Hann var stór þessi fiskur sem við náðum í íslensku lögsögunni en reyndar dálítið af átu í honum. Svo er fiskurinn úr Smugunni nokkuð smærri en með minni átu enda þeir á öðrum stað í þroskaferlinu. Það var mjög fínt að fá smá makríl svona í lokin og heldur óvænt því við héldum að þetta væri búið í bili.“

Góð og falleg síld er aftur farin að berast á móti og tæp þúsund tonn þegar farin til vinnslu í verinu síðustu dagana.

„Það er mjög góð og falleg síld sem nú er að koma í hús. Það er síld sem verið er að veiða út af Héraðsflóanum. Heilt yfir ganga þær veiðarnar ágætlega þó stærðin á síldinni sé dálítið upp og niður. Það dálítið af Íslandssíld þar með en hún er seinni til og því almennt minni. En við erum að frysta mjög hátt hlutfall af síldinni til manneldis þannig að við kvörtum ekki.“