Skip to main content

Vélkönguló skemmdist í falli við Kárahnjúka

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. ágú 2023 13:36Uppfært 15. ágú 2023 13:36

Gröfumaður slapp með minni háttar áverka þegar grafa hans valt 20-30 metra niður hlíðar Fremri-Kárahnjúks í síðasta mánuði. Vel hefur gengið að vinna upp tafir sem urðu þar sem fá þurfti nýja gröfu um verkið.


Í sumar hefur verið unnið við lagfæringar á hrunvörnum og bergstyrkingum í Fremri-Kárahnjúk. Til verksins var meðal annars fengin sérstök grafa á klifurfótum sem vísað hefur verið til sem vélköngulóar.

Atvikið varð sunnudaginn 9. júlí. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun valt grafan af stalli í fjallshlíðinni og niður að grjóthrunsgirðingu 20-30 metrum neðar. Lögregla og sjúkralið var kallað á staðinn auk þess sem atvikið var tilkynnt til Vinnueftirlitsins.

„Verkið er unnið við mjög krefjandi aðstæður. Verktakinn er sérhæfður og þjálfaður til vinnu við aðstæður sem þessar. Sérfræðingar meta hverju sinni hvaða viðbúnaðar er þörf og verklag við þennan verkþátt verður endurmetið,“ segir í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Austurfréttar um atvikið.

Grafan skemmdist nokkuð og lá vinna við ákveðna verkþætti niðri meðan beðið var eftir nýrri vélkönguló. Tíminn var hins vegar nýttur í aðra verkþætti og er verkið nú á áætlun en því á að ljúka 25. ágúst.

Vegna framkvæmdanna hefur umferð yfir Kárahnjúkastíflu verið takmörkuð í sumar. Upplýsingar um lokanir má nálgast á vef Landvirkjunar og hjá Vegagerðinni.