Óvenju ósvífið að halda að RÚV taki við leiðbeiningum um hvað sé fréttnæmt

odinn_jonsson.jpgÓðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, hafnar því að efni á fréttastofu sé unnið eftir listum frá forsvarsmönnum sveitarfélaga. Hann vonast til að aðrir Austfirðingar hafi meiri skilning á hlutverki fjölmiðla en þeir sem sendi fjölmiðlum slíka lista.

 

„Þetta er einstakt og óvenjulega ósvífið að láta sér til hugar koma að Fréttastofa RÚV taki við leiðbeiningum frá sveitarstjórnarmönnum eða nokkrum öðrum um hvað sé fréttnæmt og hvað ekki.,“ sagði Óðinn í samtali við Agl.is í dag. „Ég tek þetta ekki alvarlega. Vona bara að aðrir í þessu ágæta sveitarfélagi hafi meiri skilning á hlutverki fjölmiðla.“

Agl.is greindi frá því í morgun að formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hefði á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð sagt frá því að óskað hefði verið eftir því að fréttamaður RÚV á Austurlandi tæki jákvæðara sjónarhorn á fréttaflutning sinn úr fjórðungnum. Jafnframt hefði RÚV, og fleiri fjölmiðlum, verið sendur listi með ábendingum um fréttaefni í fjórðungnum. Upp úr listanum væri meðal annars unnið í fréttaskýringaþættinum Landanum en tökulið á hans vegum mun vera á ferðum fyrir austan.

„Umsjónarmenn Landans fara víða um Austfirði og njóta auðvitað góðra viðbragða íbúa þar og annarra landsmanna og fá ýmsar ábendingar. Hinsvegar er að sjálfsögðu ekki unnið eftir einhverjum listum sem aðra láta í té. Hverjum dettur það í hug?“ spyr Óðinn.

„Allar góðar hugmyndir eru þó að sjálfsögðu vel þegnar - líka frá sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi. Fjarðabyggð þarf ekki að kvarta undan skorti á fjölmiðlaathygli á síðustu árum.

Athyglin beinist auðvitað ekki bara að því sem einhverjir sveitarstjórnarmenn telja jákvætt, heldur að öllu sem varðar samfélagið. Umfjöllun um austfirsk málefni mætti að sönnu vera meiri og vinnum RÚV áfram að því að auka hana.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.