Skip to main content

Verðmætasköpun Austurlands í hættu því vegirnir bera ekki þungann

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. sep 2025 08:43Uppfært 19. sep 2025 08:46

Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), segir hindranir á flutningum vegna þungatakmarkana á brúm á og við Austurland alvarlegar fyrir atvinnulíf svæðisins. Þingmaður óttast að kílómetragjald skerði samkeppnishæfni fyrirtækja í fjórðungnum.


Samgöngumál voru að vanda áberandi á haustþingi SSA sem haldið var á Vopnafirði í gær. Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ávarp fyrir hönd þingmanna kjördæmisins við setningu þingsins.

Þar benti hann á að 12 af 15 brúm sem Vegagerðin skilgreinir með takmarkaða burðargetu eru í kjördæminu. Þar á meðal eru báðar brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót, Lagarfljótsbrú og brúin yfir Sléttuá í Reyðarfirði. Utan kjördæmis er brúin yfir Ölfusá ein af þremur, en framkvæmdir eru að hefjast við nýja brú. Jens Garðar sagði að þingmenn kjördæmisins yrðu að standa saman að því að þrýsta á um úrbætur.

Alvarlegar hindranir á þungaflutningum


Berglind Harpa sagði í opnunarávarpi sínu það „grafalvarlega stöðu“ að ekki sé hægt að flytja mjög þungan farm landleiðina. Í ljósi þess að 22% vöruútflutningsverðmæta þjóðarinnar komi frá Austurlandi séu „verðmæti Austurlands sett í hættu vegna innviða.“ Hún sagði að fjárfesta þyrfti í fjórðungnum til að tryggja núverandi verðmætasköpun og auka möguleikana.

Bæði Berglind Harpa og Jens Garðar héldu því fram að við breytingu á veiðigjöldum í sumar hefðu loforð verið gefin um að aukin gjaldheimta frá ákveðnum svæðum kæmi aftur til þeirra í formi samgöngubóta.

Áfram barist gegn bílastæðagjaldi


Fyrir þinginu lágu ýmsar tillögur um samgöngumál, meðal annars um að ráðist verði „tafarlaust í hringtengingu Austurlands með jarðgöngum.“ Í ályktunardrögunum sagði ekkert um á hvaða göngum eigi að byrja en Berglind Harpa minnti á að Fjarðarheiðargöng séu þau einu sem búið sé að hanna. Í ályktuninni er líka minnt á vegina yfir Öxi og Suðurfirði.

Í ályktunardrögunum er bílastæðagjöldum á Egilsstaðaflugvelli mótmælt og þess krafist að ráðist verði í uppbyggingu vallarins sem varaflugvallar í samræmi við flugstefnu Íslands. „Það verður að losa íbúa Austurlands undan þessum landsbyggðarskatti,“ sagði Berglind Harpa.

Jens Garðar gerði kílómetragjald, sem upphaflega kom fram í tíð síðustu ríkisstjórnar, að umtalsefni. Hann sagði það leggjast þyngst á íbúa landsbyggðarinnar, hækka kostnað fyrirtækja þar og skerða samkeppnishæfni þeirra. Hann er fyrsti flutningsmaður að tillögu um félag, sem hann vill kalla Þjóðbraut, um stærri samgönguframkvæmdir. Sú hugmynd byggir á innheimtu veggjalds af ákveðnum vegaköflum. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er líka að finna hugmyndir um stofnun innviðafélags. Jens Garðar sagði það félag eiga að fá kílómetragjald og ítrekaði andstöðu sína við það.

Krafa um að flutningskostnaður raforku verði jafn


Annað mál sem er á dagskrá ríkisstjórnarinnar og var líka í ályktunum þingsins var jöfnun dreifikostnaðar rafmagns. Berglind Harpa sagði það öfugmæli að Austfirðingar, með þriðjung orkuframleiðslu þjóðarinnar, greiddu flutningsgjald meðan íbúar höfuðborgarinnar slyppu við það.

Hún sagði líka að sveitarfélögin á Austurlandi væru sammála um frekari orkuframleiðslu, bæði til að treysta eða auka núverandi verðmætasköpun á svæðinu, en einnig til að tryggja orkuöryggi landsins, þar sem stór hluti framleiðslunnar sé á svæðum þar sem hætta er á einhvers konar jarðhræringum. Hún sagði nauðsynlegt að afgreiða frumvarp um orkumannvirki sem tryggi sveitarfélögum fasteignaskatt af öllum slíkum mannvirkjum.