Verðmæti óskilamuna þriggja bekkja í Egilsstaðaskóla tæplega 1,5 milljón króna
Myndi einhver trúa því að verðgildi óskilamuna í þremur yngstu bekkjardeildum Egilsstaðaskóla eftir veturinn 2022 til 2023 gæti numið yfir einni milljón króna? Hvað þá tæplega 1,5 milljón króna?
Það kann að vera erfitt að trúa en það er sannarlega raunin samkvæmt sérstakri úttekt sem annar bekkur skólans gerði nýverið með dyggri aðstoð kennara síns Drífu Magnúsdóttur. Tilefnið var að fræða börnin um sjálfbærni og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem ganga út á að fara eins vel með gjafir jarðar og kostur er.
Krakkarnir söfnuðu þar saman öllum óskilamunum þriggja yngstu bekkjardeilda skólans eftir nýliðinn vetur á einn stað og lögðust svo í rannsóknarvinnu til að finna gróflega út verðgildi hvers og eins hlutar. Úrvalið ekki lítið því þar fundust húfur, treflar, hanskar, úlpur, gallar og jafnvel skófatnaðar og nokkur hluti munanna merkjavara sem kostar jafnan sitt út í næstu verslun.
Drífa segist hafa fengið hugmyndina annars staðar frá en tilgangurinn hafi verið að fræða nemendurna um hvaðan fötin okkar komi og hvað mikið þurfi til að búa þau til og flytja þau langar vegalengdir til að einstaklingur á Egilsstöðum eða Íslandi geti fatað sig upp.
„Það kom þeim nánast öllum á óvart að vita hvaðan fötin koma og hvað langt ferli þarf að eiga sér stað áður en fötin týnast svo á göngunum hér í skólanum. Þetta var aðeins til að vekja þau til umhugsunar enda fatnaður stór hluti af því sem endar í ruslinu þó nothæft sé. Þau ætluðu ekki að trúa því að hluti þessara óskilamuna væru þeirra eigin munir þegar til kom.“
Að rannsókninni lokinni var þeim óskilamunum sem enginn eigandi fannst að komið fyrir í einni skólastofunni og börnin buðu foreldrum sínum að koma og giska á verðmæti hlutanna.
„Það var vissulega meirihlutinn sem var langt frá því að skjóta á 1,4 milljónir króna sem við fengum út en þó voru stöku foreldrar sem giskuðu á að verðmætið væri meira. Þetta verkefni gekk afar vel og vonandi eru krakkarnir nokkru nær um hvað það kostar raunverulega að týna eða gleyma fatnaði og hvetur þau til að fara betur með hlutina.“
Drífa bætir þó við að hér sé um foreldravandamál að ræða því börnin séu mörg orðin vön því að ef eitthvað týnist þá sé bara keypt nýtt og vandamálið þar með leyst.
Foreldarnir boðnir í skólastofuna að giska á raunverðmæti óskilamuna í Egilsstaðaskóla. Stór meirihluti gerði sér ekki grein fyrir verðmætunum. Mynd aðsend.