Verkafólk afgangsstærð í hagkerfinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. maí 2025 15:08 • Uppfært 02. maí 2025 15:16
Þrátt fyrir að framleiðsla verði ekki til án aðkomu launafólks virðist það oft mæta afgangi í útreikningum í hagkerfinu. Útlit er fyrir að verkfallssjóður AFLs starfsgreinafélags verði orðinn um milljarður þegar almennir kjarasamningar losna eftir þrjú ár.
AFL stóð í gær fyrir samkomum á tólf stöðum í gær í tilefni af alþjóðabaráttudegi verkafólks. Yfirskrift dagsins á landsvísu var „Við sköpum verðmætin“ og í ávarpi AFLs, sem flutt var á samkomunum, var komið inn á mikilvægi launafólks í hagkerfinu.
„Þeir sem þjóna til borðs í veitingahúsum og þrífa herbergin eru verkafólk og þeir sem sækja aflann til hafs og vinna erfiðisvinnuna um borð eru óbreyttir sjómenn. Það er enginn fiskur unninn, ekkert ál brætt og engum túristum þjónað nema með aðkomu okkar og okkar félagsmanna. Samt virðumst við alltaf vera afgangsstærð í hagkerfinu.
Þegar sérfræðingar reikna út svigrúm til launahækkana eru allir kostnaðarliðir og arðgreiðslur teknir frá og ef afgangur er – þá mögulega er tækifæri til launahækkana. Annars ekki,“ sagði í ávarpinu.
Gervistéttarfélagi ætlað að grafa undan réttindum
Þar var meðal annars vikið orðum að stéttarfélaginu Virðingu, sem sætir ásökunum um að vera gervistéttarfélag, ekki stofnað og stýrt af fulltrúum launþega heldur fyrirtækja. Virðing var ekki nefnd á nafn í ávarpinu en nokkuð augljóst við hvað var átt.
„Tilgangur þessa gerviverkalýðsfélags er að sjálfsögðu til að reyna að brjóta kjarasamninga okkar og ráða erlent vinnuafl sem ekki þekkir til hér og þekkir ekki rétt sinn – til að vinna á lægri töxtum. Takist það – eru okkar eigin kjör í hættu. Takist það er tilvera verkalýðsfélaga í hættu og þá verður enginn til að verja okkur – nema gerviverkalýðsfélögin þar sem stjórnendur fyrirtækjanna og fjölskyldur þeirra sitja í stjórnarsætum.“
Verkalýðsbarátta í grunninn mannréttindabarátta
Í ávarpinu var farið yfir hvernig réttindi launþega hafa áunnist með baráttu í gegnum aldirnar og þau felist ekki bara í krónum heldur líka réttindum. „Verkalýðsbarátta er í grunninn mannréttindabarátta og við megum ekki gleyma því að í árdaga verkalýðshreyfingar þá var alþýðufólk réttlítið og almennt fótum troðið af yfirstéttinni um heim allan. Við þurftum að berjast fyrir samningsrétti – fyrir kosningarétti og fyrir yfirleitt öllum okkar mannréttindum. Við skulum vera þess minnug að með því að standa vörð um kjör þeirra lægst launuðu – stöndum við vörð um eigin kjör.“Konur úr láglaunastörfum ekki með í umræðunni
Í haust verður hálf öld liðin frá íslenska kvennafríinu, þar sem konur gengu út af vinnustöðum til að krefjast jafnra launa á við karla. Þess er minnst með ýmsum atburðum sem Alþýðusamband Íslands tekur þátt í. Í ávarpi AFLs var komið inn á hvernig rödd ákveðinna hópa vanti oft í réttindabaráttu kvenna í dag.
„Konur í umönnunarstörfum, þjónustustörfum, ræstingarstörfum, almennt í láglaunastörfum og konur af erlendu bergi brotnar. Þessir hópar eru sjaldan þátttakendur þegar verið er að fjalla um baráttumál kvenna. Við verðum að sjá til þess að umræða um baráttumál kvenna verði ekki einhverjir „fínni kvennaklúbbar“ heldur fái venjulegar alþýðukonur líka sæti við borðið og þeirra áherslur heyrist.“
Verkfallsjóðurinn sterkur eftir þrjú ár
Þá var farið yfir að í verkfallssjóði AFLs séu um þessa mundir rúmlega 700 milljónir króna. Þegar kjarasamningar losna eftir þrjú ár verður upphæðin komin í um einn milljarð. Í ávarpinu var komið inn á að verkfallssjóðurinn þurfi að vera öflugur til að geta stutt við félagsfólk í hörðum vinnudeilum en styrkur hans geti líka verið grundvöllur þess að fara harðar fram eftir þrjú ár.
Frá aðalfundi AFLs um síðustu helgi.