Verkalýðshreyfingin hefur ekki staðið sig

Forsvarsmenn AFLs – starfsgreinafélag, segja að verkalýðshreyfingin hafi ekki enn tekið forustuna í uppbyggingu íslensks samfélags eftir efnahagshrunið eins og þurft hefði.

 

Image„Verkalýðshreyfingin hefur heldur ekki staðið sig í stykkinu – við hrunið áttum við að stíga fram og segja – hingað og ekki lengra – hér tökum við forystuna. En við gerðum það ekki,“ segir í 1. maí ávarpi AFLs.

AFL hefur barist fyrir því að Alþýðusambandið tæki forustuna eftir hrunið en ályktanir þess efnis voru ekki samþykktar á seinasta ársþingi.

„En við höfum ekki verið nógu beitt og við höfum misst helsta broddinn úr baráttu okkar. Kannski svaf verkalýðshreyfingin á verðinum og mögulega var eitt allsherjar sinnuleysi okkar allra að verki – eða hvernig hefði okkur gengið að virkja samtakamátt okkar til að berjast „gegn skattalækkunum“ eða gegn þeirri „velmegun“ sem hér virtist ríkja á meðan smjör draup af hverju strái. Það voru menn í okkar röðum sem bentu á að smjörið væri fengið að láni – kannski hlustuðum við ekki nógu vel.“

Í ávarpinu segir að launþegar hafi fórnað launahækkunum sínum með stöðugleikasáttmálanum. Ekki hafi verið sett nein skilyrði og aðeins launafólk lagt einhver verðmæti inn sáttmálann.

Erfitt geti reynst að ná þeim til baka út úr fyrirtækjum, ríki eða sveitarfélögum sem mörg standi illa. Sóknir gegn fyrirtækjum geti gert þau gjaldþrota og hjá ríki og sveitarfélögum geti þau kostað hærri álögur eða minni þjónustu.

„Við stöndum því frammi fyrir nokkrum kostum og enginn þeirra er góður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.