Verkefni í anda brothættra byggða fyrir austfirskar sveitir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. ágú 2023 08:48 • Uppfært 22. ágú 2023 08:48
Á morgun verður efnt til þings um atvinnuuppbyggingu og nýsköpun fyrir íbúa í austfirskum sveitum og aðra sem láta sig málefni þeirra varða. Fundurinn markar upphaf átaksverkefnis til eins árs, sem unnið er í anda brothættra byggða.
Borgarfjörður, Breiðdalsvík og nú Stöðvarfjörður hafa öll verið í brothættum byggðum, átaksverkefni Byggðastofnunar, auk þess sem samfélagsverkefni Fljótsdælinga byggði á svipaðri hugmynd. Hugmyndafræðin ætti því að vera Austfirðingum vel kunn.
Verkefnið, sem kallast Vatnaskil, afmarkast ekki við einn stað heldur dreifbýli eða sveitir Austurlands. Austurbrú leiðir verkefnið fyrir hönd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í samstarfi við Félag ungra bænda (FUB) og Búnaðarsamband Austurlands (BSA).
„Það er sérstök áhersla á yngra fólk, án þess að aldur þess sé sérstaklega skilgreindur,“ segir Páll Baldursson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem leiðir Vatnaskil.
Fyrir þéttbýlisbúa með áhuga á sveitum
Verkefnið hefst með íbúafundi í gamla barnaskólanum á Eiðum, en hann hefst klukkan 14:00 á morgun, miðvikudag. Sigurborg Kr. Hannesdóttir, frá Ildi, leiðir hann líkt og aðra upphafsfundi brothættra byggða.
„Fundurinn er opinn íbúum í sveitunum og þeim sem vilja annað hvort gera eitthvað þar eða hafa sterkar tengingar við sveitirnar. Við erum að koma á samtali við þessa aðila til að fá fram hvaða hugmyndir eru á lofti. Fókusinn verður á atvinnuuppbyggingu þótt skilaboð um uppbyggingu innviða geti falist innan um eins og reyndin hefur verið í svona verkefnum,“ segir Páll.
Vatnaskil fylgja þó ekki alfarið formúlunni um brothættar byggðir. Þeim hefur fylgt fjármagn sem hægt hefur verið að sækja um fyrir einstök verkefni, en slíkir pottar eru ekki í boði nú. Forsenda Vatnaskila er hins vegar 13 milljóna styrkur sem SSA fékk úr byggðaáætlun og á að dekka kostnað við verkefnið, meðal annars námskeið sem nýst geta íbúum í sveitum.
„Við segjum ekki fyrir fram hvað eigi að gera en við ætlum okkur að virkja þann mannauð sem býr í sveitunum. Hluti þessa fjármagns getur farið í að kaupa námskeið eða aðra sérfræðiaðstoð sem nýtist í verkefnið. Við þekkjum til dæmis að stundum er gerð krafa um ákveðinn þátttakendafjölda til að námskeið fari fram, en styrkurinn gæti gert okkur kleift að vera með minni námseið en ella.
Við vonumst til að það fari af stað bolti sem vindur upp á sig, eins og oft hefur verið í brothættum byggðum, til dæmis að hvatningin hvetji fólk til að sækja í aðra sjóði,“ segir Páll.
Ekki bara landbúnaður
Ár er síðan haldið var íbúaþing í Brúarási fyrir íbúa á Úthéraði. Hugmyndin af verkefninu nú á að hluta til uppruna sinn þar. „Upp úr því fór af stað umræða um að stækka það verkefni og tengja fleiri sveitir og íbúa þeirra saman þannig að fólki viti hvað annað fólk á öðrum stöðum er að gera. Það er ekki spurning um að víða í sveitunum er kraftur sem hægt er að virkja enn frekar.“
Þótt verkefnið sé unnið með samtökum bænda snýst það alls ekki eingöngu um landbúnað. „Þarna geta verið alls konar verkefni innan um. Við munum sjá hvernig verkefnið þróast og vonandi getur það staðið lengur en þetta eina ár. Vonandi verða til einhverjir klasar sem lifa áfram.