Skip to main content

Verkefnið Sterkur Stöðvarfjörður framlengt um eitt ár

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. apr 2025 14:32Uppfært 30. apr 2025 14:46

Verkefnið Sterkur Stöðvarfjörður, sem er hluti af enn stærra verkefni undir heitinu Brothættar byggðir, átti upphaflega aðeins að vera til loka þessa árs en nýverið samþykkti stjórn Byggðastofnunar eftir ósk frá íbúum að framlengja verkefnið um eitt ár.

Það mikið gleðiefni fyrir bæjarbúa enda hafa þeir fjármunir sem verkefninu fylgja sannarlega verið vítamínsprauta fyrir menningu, listir, skemmtanahald og þjónustu í bæjarfélaginu. Allt slíkt geldur eðlilega fyrir þegar íbúum fækkar jafnt og þétt yfir langt tímabil eins og raunin hefur verið á Stöðvarfirði.

Valborg Ösp Árnadóttir Warén, verkefnisstjóri Sterks Stöðvarfjarðar, segir að leitað hafi verið til íbúanna í desember síðastliðnum hvort áhugi væri fyrir hendi að kanna hvort fá mætti framlengingu því ella væri yfirstandandi ár síðasta ár verkefnisins.

„Það voru allir sammála um að það væri jákvætt skref og í kjölfarið fór sú ábending á borð Fjarðabyggðar sem óskaði formlega eftir lengingu samningsins hjá Byggðastofnun sem heldur utan um þetta allt saman. Þar var framlenging um eitt ár samþykkt seint í febrúarmánuði svo við fáum áfram aðstoð út árið 2026.“