Skip to main content

Verkfall dæmt ólögmætt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. feb 2011 23:18Uppfært 08. jan 2016 19:22

afl.gifFélagsdómur dæmdi í dag boðað verkfall félagsmanna AFLs starfsgreinafélags í fiskimjölsverksmiðjum ólögmætt. Einn dómari skilaði sératkvæði.

 

Í niðurstöðum dómsins að þar sem engar formlegar viðræður hafi farið fram hjá Ríkissáttasemjara, síðan kröfur voru settar fram, skorti lagaheimildir til vinnustöðvunar. Deiluaðilar hafa hins vegar hist á tveimur óformlegum fundum hjá sáttasemjara þar sem ljóst varð að nokkuð mikið bæri í milli.


Starfsmenn AFLs hafa að undanförnu krafist sérkjarasamning. Verkfallið átti að hefjast aðfaranótt mánudags. Fjórir dómarar af fimm féllust á kröfu Samtaka atvinnulífsins um að ógilda verkfallið og dæma Alþýðusamband Íslands, sem sótti málið fyrir hönd AFLs, til að greiða málskostnað.

Dómarinn Lára V. Júlíusdóttir skilaði sératkvæði þar sem hún segir starfsgreinafélagið ekki bundið af friðarskyldu þar sem kjarasamningar hafi runnið út seinasta haust og hafi þannig heimild til að krefjast sérkjarasamningins. Þar sem samninganefnd AFLs hafi lýst því á fundi hjá Ríkissáttasemjara að samningaviðræður væru fullreyndar bæri að sýkna starfsgreinafélagið.

Í frétt á vef AFLs er dómnum lýst sem „sigri í ósigri“ þar sem málið hafi fallið á formgalla en ekki hafi verið tekið undir rök Samtaka atvinnulífsins.

Samtökin segja á móti að verkfallið hefði orðið langt. Ástandið í íslensku efnahagslífi hefði orðið enn verra hefði „verðbólguleiðin verið farin“ og fallist á kröfur um 30% launahækkanir.