Verktakar sýna uppbyggingu í nýjum miðbæ Egilsstaða áhuga
„Það hafa nokkrir aðilar forvitnast um verkefnið og sýnt því áhuga þannig að þessi bolti er farinn að rúlla,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, fráfarandi formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings.
Tveir mánuðir eru liðnir síðan sveitarfélagið kynnti nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Egilsstaða en þar er gert ráð fyrir að gjörbreyta miðbænum frá því sem nú er með lágreistum byggingum sem ætlunin er að verði blanda af íbúðum og verslunum og megináherslan á gangandi og hjólandi vegfarendur. Verkefnið, sem lesa má um hér, hlaut nafnið Straumur.
Aðspurður um hvort verktakafyrirtæki hafi sýnt uppbyggingunni áhuga staðfestir Stefán Bogi að svo sé en hugmyndin er að skipta verkefninu upp í fjóra hluta svo smærri aðilar hafi getu og tök á að taka þátt ef áhugi er á.
„Félag eldri borgara hefur meðal annars hug á að byggt verði meira fyrir þann hóp og einhverjir sýnt því áhuga nú þegar,“ segir Stefán. „Þetta er auðvitað stór og mikið langtímaverkefni en viðbrögðin svona til að byrja með eru jákvæð.“
Miðbæjarsvæði Egilsstaða tekur stökkbreytingum með nýju deiliskipulagi sem kynnt var nýverið.