Verslunarmannahelgin sú umferðarþyngsta á Austurlandi
Þó bílaumferð á þjóðvegum landsins flestar helgar um mitt sumar hafi um langt skeið aukist jafnt og þétt var það lengi vel Verslunarmannahelgin sem upp úr stóð víðast hvar hvað umferðarþunga varðaði. Þetta sumarið var sú helgin einungis mesta umferðarhelgin á Austurlandi samkvæmt tölum Vegagerðarinnar.
Það er, með öðrum orðum, Verslunarmannahelgin sem reynst hefur umferðarþyngsta helgin austanlands hingað til en umferðin annars staðar í landinu þá helgina dróst heldur saman og mældist reyndar umferðarminnsta eða næst-umferðarminnsta sumarhelgin á Suður- og Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu.
Þó Vegagerðin sé ekki með vangaveltur um ástæður umferðarþunga á hinum og þessum stöðum í tilkynningu sinni um þessa löngu og vinsælu helgi má leiða líkum að því að tvær ástæður helstar skýri sérstaklega mikla umferð á Austurlandi þennan tíma. Annars vegar hið fjölmenna Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands sem haldið var á Egilsstöðum þá helgina en líklega ekki síður mikil veðurblíða í fjórðungnum öllum yfir sama tímabil sem trekkti enn fleiri til svæðisins.
Tölur Vegagerðarinnar sýna einnig að umferð almennt á þjóðveginum á Austurlandi hefur aukist verulega í júlímánuði tvö síðastliðin ár. 2024 jókst umferðin þann mánuð um 8,8% frá fyrra ári en í ár jókst hún enn frekar um 4,9%. Uppsafnað hefur umferð á Austurlandi aukist um 5,9% frá áramótunum.