Skip to main content

Verslunin Pan stækkar áfram

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. ágú 2025 23:19Uppfært 31. júl 2025 23:32

Verslun Pan í Neskaupstað stækkaði nýverið við sig. Verslunarstjórinn segir að vörurnar séu núna aðgengilegri en áður auk þess sem eitthvert svigrúm sé til að bæta við vöruframboðið.


„Við fengum 50-60 fermetra í verslunina og svo 100 fermetra í grófan lager. Þetta er ekki mikið en nóg.

Aðalatriðið var að gera búðina aðgengilegri og geta sýnt meira af vörunum okkar. Hluti þess sem var á efri hæðinni er núna komið niður,“ segir Víglundur Gunnarsson, eigandi verslunarinnar.

Hann tók við því sem áður var Verslun Vík árið 2010. Lengra aftur byggir verslunin á byggingavörudeild Kaupfélagsins Fram. Hún er eina byggingavöruverslunin í Fjarðabyggð með umboð fyrir vörur frá Málningu, Múrbúðinni, Þ. Þorgrímssyni og bætir raftækjum við í gegnum Ormsson.

Næsta byggingavöruverslun er Húsasmiðjan á Egilsstöðum. „Heimamenn koma til okkar þótt þeir fari líka í Húsasmiðjuna en á móti koma Héraðsmenn líka hingað. Fólk sækir í allt mögulegt, meira að segja klósett á 27.000 krónur sem fást hvergi annars staðar.“

Verslanir eiga víða undir högg að sækja, meðal annars vegna samkeppni við netverslun en Víglundur ber sig vel. „Netverslun á ekki endilega mikið við um það sem við erum með og fólk sækir í persónulegri þjónustu.“

Starfsmenn Pan á nýja svæðinu, frá vinstri: Víglundur Gunnarsson, Helenda Lind Ólafsdóttir og Bryndís Hugadóttir.