Vertíðarlok hjá báðum austfirsku skíðasvæðunum
Vertíðarlok hafa nú orðið hjá báðum skíðasvæðum Austurlands í Stafdal og Oddsskarði eftir töluvert rysjótt veðurfar á báðum stöðum seinni hluta vetrar. Náðist einungis að hafa opið í rúmlega 60 daga á svæðunum sem er í minna lagi.
Á báðum svæðum var slökkt fyrir rafmagnið á lyfturnar þann 30. apríl en allnokkur hlýindakafli síðustu vikur hafði þá brætt burt of mikinn snjó í brekkunum svo hægt væri að halda opnu lengur.
Þó skíðadagar hafi verið fáir er ánægja með þá aðsókn sem þó náðist og fjölbreyttir viðburðir fóru fram og þá sérstaklega í Oddsskarði þar sem bæði Austurland Freeride Festival og Big Pond brettahátíðin fóru fram. Það í viðbót við þrjú stór skíðamót sem haldin voru með afar góðum árangri.
Þessi vetur var sá fyrsti þar sem skíðaáhugafólki gafst kostur á að kaupa einn og sama skíðapassann sem gilti á bæði austfirsku svæðin. Það var skref sem lengi hefur verið kallað eftir enda styrkir slíkt stoðir vetrarferðamennsku í fjórðungnum.
Austurfrétt hefur vitneskju um allnokkrir nýttu sér það en samkvæmt upplýsingum frá rekstaraðilum svæðanna hefur ekki enn verið tekið saman hversu margir nákvæmlega grípu þá gæsina þennan fyrsta vetur sem slíkt var í boði.