Skip to main content

Vetrarkort auka möguleika skíðaáhugafólks austanlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. jan 2024 11:36Uppfært 17. jan 2024 11:43

Skíðaáhugafólk á Austurlandi gæti brosað aðeins breiðar eftirleiðis því tekist hefur samkomulag um að árskorthafar skíðapassa á hvort austfirskt skíðasvæðið fyrir sig komist nú frítt fimm sinnum á hitt skíðasvæðið.

Samkomulag þessa efnis var gert snemma í vikunni á milli Múlaþings og Fjarðabyggðar en þetta merkir að nú geta eigendur árskorta á skíðasvæðinu í Stafdal komast frítt fimm skipti á skíðasvæðið í Oddsskarði og öfugt fyrir árskorthafa Í Oddsskarði.

Umleitanir þessa efnis hafa verið í gangi um hríð á milli sveitarfélaganna en lengi vel hefur verið bent á mikil sóknarfæri í því að bjóða skíðapassa sem gilda á bæði austfirsku skíðasvæðin. Þar ekki síst gagnvart gestum og ferðamönnum en töluvert er um að höfuðborgarbúar fljúgi norður til Akureyrar þar sem nokkur skíðasvæði hafa einmitt verið í slíku samstarfi um tíma. Þar um að ræða tímabundna passa yfir helgi eða nokkra daga en samkomulagið nú gildir aðeins um árskorthafa austanlands að sinni.

Engu að síður góður kostur fyrir skíðaáhugafólkið enda bæði skíðasvæðin engu síðri en vinsælli skíðasvæði annars staðar á landinu og þar sem töluverður munur getur verið á veðurfari og snjóalögum í Stafdal og Oddsskarði á hverjum tíma fyrir sig gæti þetta komið mörgu skíðaáhugafólkinu vel.

Frá Oddsskarði en þar hefur verið nægur snjór síðan í byrjun desember þó svæðið hafi aðeins formlega opnað um áramótin. Mynd Visit Fjardabyggd