„Vetrarþjónusta þarf að taka mið af linnulausum ferðamannafjölda“

Ábúandi að Hákonarstöðum í Efri-Jökuldal hefur enn einu sinni ítrekað fyrir forsvarsmönnum bæði Múlaþings og Vegagerðarinnar nauðsyn þess að vetrarþjónusta á Jökuldalsvegi taki mið af mikilli umferð ferðafólks allan ársins hring. Þjónustan lítið breyst í áranna rás þrátt fyrir margfalda umferð.

Sigvaldi H. Ragnarsson á Hákonarstöðum sendi báðum aðilum erindi fyrir skömmu um brýna nauðsyn þess að bæta vetrarþjónustu á þessum eina vegi að langvinsælustu náttúruperlu Austurlands: Stuðlagili. Þangað sækir ferðafólk allan ársins hring og Sigvaldi segir íbúa ósjaldan lenda í að aðstoða ferðafólk sem festir sig í snjó eða þvælist þar um þrátt fyrir slæmt veður.

Aukin þjónusta eða lokun

Sigvaldi gengur svo langt að segja að annaðhvort þurfi beinlínis að beita lokunum á veginum þegar veður eða veðurspá sé þess konar, eins og raunin var um liðna páska, ellegar stórauka mokstur og þjónustu. Ekki sé verjandi að íbúar á svæðinu þurfi sýknt og heilagt að eyða tíma sínum til að koma fólki til aðstoðar fyrir utan aukna hættu á að alvarleg slys verði á vegkaflanum.

„Ég vil bara að forsvarsmenn Vegagerðarinnar og Múlaþings fari að átti sig á að hingað er linnilaus umferð ferðafólks allan ársins hring. Mokstur og viðhald verður að fara að taka mið af þessari miklu umferð. Dæmin eru fjölmörg en til dæmis um páskana þegar nánast ekkert ferðaveður var á Austurlandi var samt nokkur hópur fólks að keyra hingað inneftir. Meðal annars þurfti að aðstoða þá fólk sem komið hafði alla leið frá suðurhluta Kína og hafði aldrei séð snjó áður. Svo hef ég tekið eftir að fólkið eyðir enn lengri tíma hér ef vegir eins og yfir Möðrudalinn lokast. Það þarf þá að eyða tímanum með öðrum hætti sem ýmsir gera hér í dalnum þó ekkert sé veður til slíks.“

Slitrótt samband

Annað það sem gerir reglulegan mokstur nauðsynlegan sé sú velþekkta staðreynd að farsímasamband á veginum sé að stórum hluta takmarkað og á köflum nánast ekkert.

„Það gömul saga og ný að farsímasambandið á veginum hingað er takmarkað. Það er ágætt að mestu sé fólk hjá Símanum en aðrir sem fá sitt samband gegnum önnur fyrirtæki eru sambandslitlir eða jafnvel sambandslausir á hluta leiðarinnar. Hér verið að ræða um fimmtán kílómetra langan vegkafla sem aðeins að litlum hluta hefur verið endurnýjaður miðað við aukna umferð og sambandsleysi ekki óalgengt. Það hlýtur að segja sig sjálft að hér þarf að bregðast við.“

Engin svör borist

Sigvaldi viðurkennir fúslega að það sé beinlínis leiðinlegt að ítreka aftur og aftur sama hlutinn og síðasta skeyti hans til þartilbærra yfirvalda ekki hið fyrsta. Það gangi ekki að heimamenn í dalnum þurfi ítrekað að koma ferðafólki til aðstoðar eins og raunin hefur verið.

„Að því sögðu þá hef ég nú ekki fengið nein formleg svör við erindinu. Hvorki frá Múlaþingi né Vegagerðinni sjálfri. En það er hundleiðinlegt að standa í því að benda á þetta aftur og aftur og ekki mikið til vinsælda fallið.“

Vilja Vegagerðina á fund

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings tók erindi Sigvalda fyrir á fundi ráðsins í vikunni. Þar bókað að fara þess á leit við starfsfólk Vegagerðarinnar að koma á fund vegna þessa og ræða vetrarþjónustu í sveitarfélaginu. Ráðið beindi þeim tilmælum til byggðaráðs sveitarfélagsins að bregðast við ákallinu um bætta símaþjónustu.

Sumarið 2022 var fyrsti hluti af þremur alls á Efri-Jökuldalsvegi endurnýjaður og bættur. Ekkert liggur fyrir um hvenær hinir tveir kaflarnir að náttúruperlunni Stuðlagili koma til framkvæmda. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.