Skip to main content

„Við viljum auðvitað orkugarð“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. maí 2022 18:12Uppfært 04. maí 2022 18:12

Frambjóðendur til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar ætla allir að vinna að framgangi hugmynda um grænan orkugarð og fagna aðkomu erlendra fjárfesta að málinu.


Frambjóðendur hafa margir komið inn á orkugarðinn í framsöguræðum sínum á þeim fjórum fundum sem lokið er, en sá fimmti verður í Eskifjarðarskóla klukkan 20:00 í kvöld. Í orkugarðinum er ætlað að framleiða rafeldsneyti með að nota rafmagn til að kljúfa vatn en einnig byggja upp frekari starfsemi sem nýtir annað sem fellur til við starfsemina.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks hefur sagt orkugarðana verkefni sem fjárfestar horfi áhugasamir á og Stefán Þór Eysteinsson, sem leiðir Fjarðalistann, að stutt verði við verkefnið. „Við viljum auðvitað grænan orkugarð, það er stórt og mikið verkefni,“ sagði Anna Berg Samúelsdóttir frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sagði á Breiðdalsvík á sunnudag.

Frambjóðendur Framsóknarflokksins hafa talað hvað ákafast fyrir orkugarðinum. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sem skipar annað sæti framboðsins, hefur lýst þeirri sýn að Fjarðabyggð verði miðstöð framleiðslu grænnar orku hérlendis og í fremstu röð í nýtingu hennar. Þannig leggi sveitarfélagið sitt af mörkum í orkuskiptum.

Þarf gríðarlega orku

Umfang garðanna liggur ekki enn fyrir og þar af leiðandi heldur ekki orkuþörfin. Þó liggur fyrir viljayfirlýsing um kaup á rafmagni frá Arctic Hydro ef fyrirtækið virkjar Hamarsá í Hamarsfirði. Önnur yfirlýsing er um kannanir á vindmyllugarði í Fljótsdal. Þar er talað um 50 vindmyllur sem yrðu 200 metrar í hæstu stöðu og þektu 50 ferkílómetra svæði, líklega uppi á Fljótsdalsheiði. Öll orkuöflunin er í eigu og á hendi hins danska CIP, eins þeirra félaga sem koma að orkugarðinum.

Á framboðsfundi á Stöðvarfirði á sunnudagskvöld innti Austurfrétt frambjóðendur eftir hvað þeir teldu ásættanlegan fórnarkostnað fyrir raforkuöflunina og hvað þeim þætti um að hún, og þar með væntanlega arðurinn af henni, væri alfarið á hendi erlends fyrirtækis.

„Við fögnum áhuga erlendra fjárfesta í að taka þátt í atvinnu- og verðmætasköpun. Okkur líst mjög vel á þetta verkefni,“ sagði Ragnar.

„Það er óljóst hver lágmarksorkuþörfin er en það er talað um 200-400 MW sem er gríðarleg orka. Hennar er hægt að afla með margvíslegum hætti. Við teljum þetta ákjósanlegt og umhverfisvænt skref í orkuskiptum sem við verðum að stíga og tryggja að raforkuvinnslu verði komið á.“

Ekki innanhússmál Íslands

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks, kallaði eftir umræðu í landinu um raforkuframleiðslu. „Það er ljóst að við þurfum í orkuöflun, burtséð frá orkugörðunum. Það er áætlað að 1200 MW þurfi í orkuskipti og rafeldsneytið er þar fyrir utan. Þetta er ekki bara innanhússmál Íslands, við höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar. Við stöndum ekki undir þeim nema með frekari orkuöflun.“

Jón Björn sagði Íslendinga eiga inni svæði fyrir vindorku en einnig geta náð meira úr vatnasvæðum þar sem þegar væru virkjanir til staðar, til dæmis megi bæta afköst einhverra virkjana. Mikilvægt sé þó að samþykkja nýja rammaáætlun sem móti stefnu til framtíðar. Hann kvaðst fagna erlendri fjárfestingu og kostur væri að Landvirkjun kæmi að orkugörðunum þótt fleiri þyrfti til.

Það sem nú er að gerast dýrara fyrir umhverfið

Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, sagði að betra væri ef fjárfestarnir væru allir innlendir. Ef vel sé að staðið geti erlendir fjárfestar reynst vel enda komi þeir oft með þekkingu sem ekki sé til staðar hér. Mikilvægt sé þó að Íslendingar hafi full forráð yfir sínum auðlindum og þær séu nýttar á sjálfbæran hátt.

Hann ítrekaði mikilvægi þess að jarðefnaeldsneyti yrði skipt út fyrir nýja orkugjafa og dýrmætt væri fyrir heiminn ef Ísland gæti gert það á hagkvæman hátt. „Það sem er að gerast núna fyrir umhverfið er dýrara.“

Treystir umhverfismatinu

Anna Berg staðfest stuðning VG við orkugarðinn varaði við að nafnið væri „til að sáldra englaryki í augu“ fólks. Í raun væri þetta stór verksmiðja og því væri mikilvægt að styðja við minni fyrirtæki til að tryggja fjölbreytni í atvinnulífinu.

Hún bætti við að náttúran hefði engan málsvara og ekki væri sanngjarnt að „trompa hana út fyrir eitthvað annað.“ Við orkuöflun yrði að hafa sjónarmið sjálfbærni í huga. Hún sagði vinnuna í startholunum og kvaðst treysta því að umhverfismat myndi skera úr um fýsileika virkjunarmöguleika. Um aðkomu erlendra fjárfesta sagði Anna Berg að verkefnið krefðist mikillar sérhæfingar sem ekki væri víst að Íslendingar hefðu burði í til að standa undir einir.

Þessu til viðbótar ræddi hún flutningskerfi raforku á framboðsfundi á Fáskrúðsfirði á föstudagskvöld, sagði að framboðið vildi fjölga hraðhleðslustöðvum til að liðka fyrir rafbílum. Til þess þyrfti að stórefla flutningskerfi raforku inn til Fjarðbyggðar. „Mér finnst skrýtin sú skammsýni sem Landsnet hefur sýnt með að hafa ekki sótt um öll nauðsynleg leyfi.“