Viðbygging Safnahússins boðin út í haust
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. júl 2025 11:46 • Uppfært 17. júl 2025 13:57
Stefnt er á að viðbygging Safnahússins á Egilsstöðum verði boðin út í haust eftir að umhverfis- og framkvæmdaráð staðfesti hönnunargögn í byrjun mánaðarins. Formaður ráðsins segir ánægjulegt að málið sé komið þetta langt en húsið hefur aldrei náð nema hálfri stærð.
Safnahúsið er 30 ára í ár en starfsemi í því hófst snemma árs 1995. Frá upphafi var gert ráð fyrir að húsið yrði með tveimur burstum en til að koma verkinu áfram var ákveðið að byggja aðeins aðra burstina, rúmlega helming hússins, fyrst.
Nú loks hyllir undir seinni burstina því umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings staðfesti hönnunargögn viðbyggingarinnar á fundi sínum nýverið og að farið yrði í útboð. „Við erum glöð yfir að hönnunarferlinu sé lokið og spennt fyrir að sjá verkið fara af stað,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, formaður ráðsins og forseti sveitarstjórnar.
Aðstaða í húsinu mun batna til muna. Við bætast skrifstofur fyrir starfsfólk, starfsmannaaðstaða og geymsla muna lagast, svo eitthvað sé nefnt.
Ríkið lagði til fé í tvö menningarhús á Egilsstöðum
En þótt málið sé komið þetta langt er það ekki í höfn enn. Sumarið 2018 var samið um að ríkið legði fjármagn í uppbyggingu annars vegar Sláturhússins á Egilsstöðum, hins vegar Safnahússins. Framlag ríkisins var 200 milljónir og þá átti Safnahúsið að kosta 300 milljónir en Sláturhúsið 200 milljónir. Sveitarfélagið valdi að setja Sláturhúsið í forgang og þar lauk framkvæmdum árið 2022. Eftir það var byrjað að huga að Safnahúsinu og ný byggingarnefnd skipuð.
En á þessum tíma hefur verðlag hækkað. Samkvæmt síðustu fjárhagsáætlun Múlaþings var áætlað að viðbyggingin kostaði alls 332 milljónir. Til hennar yrði veitt 192 milljónum í ár og 140 milljónum á því næsta þar sem hún yrði kláruð. Upphaf framkvæmda hefur tafist svo nokkuð ljóst er að lítið verður úr verki í ár.
Frekari ákvarðanir eftir útboð
Jónína segir að þegar tilboð verði opnuð komi í ljós endanlegt verð. Víst sé að framkvæmdin verði dýrari en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir en miðað við þau gögn sem fyrir liggi sé fermetraverðið á eðlilegu róli. Kostnaðurinn verður endurmetinn við gerð fjárhagsáætlunar í haust en í fundargerð segir að breytingum á kostnaðaráætlun sé vísað til endurskoðunar fjárfestingaáætlunar.
En miðað við að ekki verði óeðlilegar tafir úr þessu er stefnt að því að bjóða verkið út í haust þannig að hægt verði að byrja á því næsta vor.
Vegna framkvæmdanna þarf að flytja alla gripi úr geymslum Safnahússins. Gert er ráð fyrir að munirnir verði fluttir allir í haust en Minjasafn Austurlands hefur tryggt sér geymsluhúsnæði á tveimur stöðum á Egilsstöðum.
Tölvuteikning af Safnahúsinu eins og það á að líta út fullbyggt. Mynd: Múlaþing