Viðgerðum lokið á Fljótsdalslínu 2
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. nóv 2023 18:38 • Uppfært 08. nóv 2023 18:40
Vinnuflokkur Landsnets lauk á sjötta tímanum í dag viðgerðum við Fljótsdalslínu 2. Rekstur raforkukerfisins á Austurlandi á þar með að vera kominn í eðlilegt horf.
Gert var við línuna til bráðabirgða á mánudagskvöld og hún keyrð í gær meðan gert var við Teigarhornslínu. Þessar tvær línur flytja rafmagn úr sitt hvorri áttinni að tengivirki við Hryggstekk í Skriðdal þaðan sem því er dreift út um fjórðunginn.
Í Fljótdalslínunni skemmdust einangrar og leiðari í miklu ísingarveðri á Hallormsstaðahálsi í byrjun vikunnar.
Þetta hafði síðan víðtækar afleiðingar í raforkukerfinu á Austurlandi. Stuðlalína, sem liggur frá Hryggstekk niður að Stuðlum í Reyðarfirði og Neskaupstaðalína 2, um göngin frá Eskifirði til Norðfjarðar, var haldið úti þar til viðgerðinni lauk í dag vegna neikvæðra áhrifa á spennu á kerfið á Austfjörðum.