Viðreisn skoðar framboð í Múlaþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. jún 2025 11:01 • Uppfært 11. jún 2025 11:11
Viðreisn skoðar að bjóða fram undir eigin nafni í Múlaþingi í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Flokkurinn vinnur að eflingu svæðafélaga víðsvegar um landið til að vinna að þessu markmiði en slíkt félag var stofnað í Múlaþingi í lok maí.
„Það er klárlega eitthvað sem við erum að skoða,“ svarar Heiða Ingimarsdóttir, formaður félagsins og varaþingmaður í Norðausturkjördæmi, aðspurð um möguleikann á framboði í sveitarstjórnarkosningunum sem haldnar verða 16. maí á næsta ári.
„Þessi fundur var fyrsta skrefið af mörgum sem þarf að taka en með stofnun félagsins er verið að sýna áhuga á kosningunum. Síðan erum við að kanna frekari grundvöll framboðs,“ bætir hún við.
Viðreisn á bæjarfulltrúa á nokkrum stöðum, svo sem í Garðabæ, Hafnarfirði, Reykjavík, Kópavogi og Mosfellsbæ, í eigin nafni eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2022. Þá átti flokkurinn fulltrúa á listum með öðrum svo sem á Akureyri, í Árborg og Borgarbyggð.
Ljóst er að hreyfingin, sem komst í ríkisstjórn eftir Alþingiskosningar í nóvember, er að undirbúa sveitarstjórnarkosningarnar því daginn áður en félagið í Múlaþingi var stofnað var haldinn aðalfundur félagsins á Akureyri. „Það er verið að nýta þann kraft og meðbyr sem við finnum og var til staðar, bæði fyrir og eftir, síðustu þingkosningar,“ segir Heiða.
Ekki hægt að tala um neitt nema minnast á samgöngumálin
Á stofnfundinn, sem haldinn var á Eiðum, mættu meðal annars þingmennirnir Grímur Grímsson og Eiríkur Björn Björgvinsson. Sá síðarnefndi kemur úr Suðvesturkjördæmi en hann var áður bæjarstjóri Austur-Héraðs og Fljótsdalshéraðs á árunum 2002-2010.
Í stjórn Viðreisnar í Múlaþingi sitja auk Heiðu þau Páll Baldursson og Arngrímur Viðar Ásgeirsson en Jens Hilmarsson og Urður Arna Ómarsdóttir eru í varastjórn.
Heiða segir að á stofnfundinum hafi skapast fjörugar umræður og meðal annars rætt við þingmennina um hvernig Viðreisn geti mætt þeim áskorunum sem svæðið standi frammi fyrir. „Þetta voru þau mál sem mest er talað um. Samgöngumálin voru ofarlega enda varla hægt að tala um neitt án þess að minnast á þau en svo var líka komið inn á heilbrigðismálin og almennt hvernig haldið verði áfram með flokksstarfið í Múlaþingi.“
Stjórn Viðreisnar í Múlaþingi, frá vinstri: Páll Baldursson, Heiða Ingimarsdóttir, Urður Arna Ómarsdóttir og Arngrímur Viðar Ásgeirsson. Mynd: Viðreisn