Jón Björn: „Vil ekki að umræða um mig fari að há Fjarðabyggð“

Jón Björn Hákonarson, sem í gær tilkynnti að hann hygðist hætta sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segist hafa fundið það síðustu mánuði að starfið væri farið að reyna meira á hann og því ákveðið að láta staðar numið. Ekkert eitt málefni hafi valdið því. Hann tjáir sig ekki að svo stöddu um af hverju sumarbústaðir í eigu hans og skyldmenna voru óskráðir og ekki greidd af þeim fasteignagjöld.

„Eins og ég sagði í minni yfirlýsingu í gær þá hef ég verið lengi á vettvangi sveitarstjórnarmála og átt gott samstarf við fólk og fengið að koma að mörgum skemmtilegum málum. Starfið hefur samt líka tekið í og ég hef fundið það síðastliðna 2-3 mánuði að það hefur tekið meira í hjá mér.

Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um fólk í stjórnmálum. Umræðan hefur verið mikil og erfið. Á ákveðnum tímapunkti settist ég niður til að velta fyrir mér hvert ég vildi stefna. Niðurstaðan var að ég vildi horfa eftir öðrum áskorunum eftir smá hvíld.

Ég tók þessa ákvörðun fyrir helgi en vildi tilkynna hana á bæjarráðsfundi,“ segir Jón Björn í samtali við Austurfrétt og bætir við að ekkert eitt málefni hafi leitt hann að þessari niðurstöðu.

Jón Björn hefur verið viðloðandi sveitarstjórnarmál í Fjarðabyggð frá árinu 1994. Hann varð oddviti Framsóknarflokksins fyrir kosningar 2010 og sat síðan sem forseti bæjarstjórnar í áratug áður en hann varð bæjarstjóri haustið 2020 þegar Karl Óttar Pétursson hætti óvænt störfum.

Jón Björn leiddi Framsóknarflokkinn í kosningum í maí og í meirihlutaviðræðum sem lyktuðu meðal annars með því að hann var ráðinn bæjarstjóri. „Ég fór inn í kosningarnar í fullu fjöri en þegar leið á veturinn fann ég að ég var farinn að þreytast,“ svarar Jón Björn um hvort sú þreyta sem hann vísar til nú hafi verið farin að gera vart við sig þá.

Umræðan harðnað síðustu ár

Í tilkynningunni frá í gær ræddi Jón Björn um starfsumhverfi kjörinna fulltrúa og orðræðu um þá, sem hann sagði oft snúast meira um persónur heldur en málefni. „Ég er ekki síst að hugsa um þetta fyrir það fólk sem er að koma inn í stjórnmálin eða hefur áhuga á því.

Við sem staðið höfum lengi í þessu höfum leitt hana hjá okkur. Umræðan er ekkert öðruvísi hér í Fjarðabyggð heldur en annars staðar á Íslandi. Það er komið inn á þetta í skýrslu sem Samband íslenskra sveitarfélaga tók nýverið saman um störf kjörinna fulltrúa.

Það er eðlilegt að málefnin séu rædd og störf, ákvarðanir og stefna séu gagnrýnd en þótt maður sé öllu vanur þá er hún orðin persónulegri og það hefur áhrif. Vinnuálag og fleira er trúlega einnig farið að segja til sín en ég finn þetta hefur haft áhrif á mig.“ Aðspurður svarar Jón Björn því að umræðan hafi harðnað þann tíma sem hann hefur verið aðalfulltrúi í bæjarstjórn.

Aðspurður um hvort umræðan hafi á stundum verið farin að snúast meira um hann heldur en störf meirihlutans svarar Jón Björn: „Þegar umræðan er farin að kristallast um mig frekar en málefnin þá er það hvorki gott fyrir meirihlutann né Fjarðabyggð. Þá getur verið einfaldast að stíga út úr því, ég er bara verkamaður í víngarði Drottins.

Ég er kannski ekki dómbær á stöðuna en ég vil að minnsta kosti ekki að svo verði að umræða um mig fari að há sveitarfélaginu. Það sem stendur upp úr er að Fjarðabyggð er flott sveitarfélag með mikla möguleika. Við höfum áorkað mörgu og stígið stór skref síðustu ár. Að því hef ég fengið að koma með mörgu fólki.“

Ræðir ekki sumarbústaðina að sinni

Á ýmsu hefur gengið hjá Fjarðabyggð síðustu misseri. Umræða um íþróttahúsið á Eskifirði hefur verið hatrömm. Í apríl hættu óvenju margir starfsmenn hjá sveitarfélaginu en Austurfrétt hefur heimildir um samstarfsörðugleika á bæjarskrifstofunum sem ná mun lengra aftur en það. Fyrir helgi barst Fjarðabyggð erindi þar sem bent var á að sumarbústaðir í eigu Jóns Björns og náinna skyldmenna í Fannardal, sem gengur inn úr Norðfirði, væru óskráðir og ekki greidd af þeim fasteignagjöld.

Í hádegisfréttum RÚV var greint frá því að gjöldin næmu um 20 þúsund krónum á ári og skráning á bústað Jóns Björns væri nú komin í lag. Samkvæmt heimildum Austurfréttar þóttu skýringar sem Jón Björn gaf á skráningunni í gærmorgunn ekki fullnægjandi. Í Fréttablaðinu var haft eftir Snorra Styrkárssyni, fjármálastjóra að ekki hefðu verið veitt leyfi fyrir bústöðunum en vinna við þá heldur ekki verið stöðvuð. Túlka mætti þá sem þeir væru óleyfisframkvæmd.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Jón Björn ekki ætla að sjá sig um málið nema að hann hefði aldrei komið að umfjöllun um eigin mál. Fyrirspurninni hefði verið beint til sveitarfélagsins og hún færi sína leið innan bæjarkerfisins sem endaði væntanlega með svari á fundi bæjarráðs næsta mánudag.

Ekki sótt um starf og ekkert í sigtinu

Jón Björn ráðgerir fyrir að gegna starfi bæjarstjóra út þessa viku sem fari í að ganga frá erindum og lausum endum. Staðgengill bæjarstjóra taki síðan við helstu verkefnum í næstu viku, verði ekki nýr bæjarstjóri tilbúinn þá. Jón Björn segist ekki koma að ráðningu nýs bæjarstjóra, það sé í höndum meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista. „Samstarfið í meirihlutanum hefur verið mjög gott og þar mikið af hæfileikaríku og flottu fólki sem ég veit að mun vinna vel fyrir sveitarfélagið.“

Samhliða því sem Jón Björn hættir sem bæjarstjóri fer hann í leyfi frá bæjarstjórn, út árið til að byrja með. Við það hættir hann sem fulltrúi í þeim ráðum, nefndum og öðru sem hann er kjörinn í á vegum sveitarfélagsins. Þar á meðal er Samband íslenskra sveitarfélaga. Jón Björn er þar varaformaður.

Umsóknarfrestur um stöðu framkvæmdastjóra Sambandsins var framlengdur um viku í gær. Jón Björn hefur verið orðaður við hana en aftekur það með öllu og segir allt óráðið um hvað taki við. „Ég er ekki umsækjandi þar og hef ekki hugsað mér það. Ég hefði þá látið vita strax og staðan losnaði að ég hefði áhuga á henni. Ég hef heyrt ég sé með tilboð úr ýmsum áttum en þessi ákvörðun er ekki tekin þannig, heldur með sjálfan mig í huga.

Ég hef ekki sótt neins staðar um eða hef augastað á neinu. Ég ætla mér að ljúka störfum mínum hér vel þannig að öll mál séu komin í hendur þeirra sem taka við þeim. Ég á töluvert sumarfrí inni og ætla að hvíla mig. Síðan fer ég að horfa í kringum mig.“

Mynd: Landsvirkjun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.